Skoðun

Reykjavík í samkeppni við aðrar borgir

Dagur B. Eggertsson skrifar
Samkeppnishæfni Reykjavíkur hefur verið okkar helsta verkefni á undanförnum árum. Til þess að teljast samkeppnishæf verðum við að vera lífsgæðaborg, skólaborg og velferðarborg en jafnframt fjölga spennandi störfum og tækifærum fyrir ungt fólk og stuðla að öflugu, fjölbreyttu atvinnulífi. Reykjavík hefur verið hástökkvari bæði í nýlegum alþjóðlegum samanburði á lífsgæðum og samkeppnishæfni.

Að þróa fjölbreytta, græna og nútímalega borg fyrir alla byggir á framtíðarsýn og kallar bæði á stefnufestu og úthald. Borg sem er án vegvísis og framtíðarsýnar þróast ekki sjálfkrafa í rétta átt. Við eigum að bera Reykjavík saman við aðrar borgir Norðurlanda frekar en sveitarfélög hérlendis. Í nýjum samanburði Norrænu ráðherranefndarinnar höfum við skákað öllum borgarsvæðum af okkar stærð, tekið fram úr Helsinki og aðeins Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmur skáka Reykjavík í samkeppnishæfni. Á tíu ára fresti tekur tímaritið The Economist saman lista yfir lífsgæði í borgum. Í síðustu mælingu var Reykjavík hástökkvari, m.a. vegna metnaðarfullra uppbyggingarverkefna og aukins menningarframboðs. Hvort tveggja er fagnaðarefni. Við getum verið stolt af þróun borgarinnar okkar.

Það á að vera kappsmál að nýjar kynslóðir vilji búa í Reykjavík fremur en í öðrum borgum. Ungt fólk leitar til borga og getur starfað hvar sem er í heiminum. Ísland á mikið undir því að Reykjavík gangi vel í þessari samkeppni en þar eigum við að keppa á grundvelli menntunar, velferðar, öryggis og góðrar þjónustu, auk þeirra lífsgæða sem kraftmikið og fjölbreytt borgarsamfélag getur boðið upp á. Norðurlöndin hafa sýnt að áhersla á jöfnuð og jöfn tækifæri í bland við öflugt og framsækið atvinnulíf er sú leið sem best hefur gefist í þessu. Það er leið jafnaðarmanna. Það er líka rétta leiðin fyrir Reykjavík. Borgin okkar hefur aldrei verið eins kraftmikil, lifandi og fjölbreytt og einmitt núna. Og það er mikilvægt að halda áfram á réttri leið. Áfram Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×