Skoðun

Fullorðið fólk í byssuleik

Guttormur Þorsteinssog og Stefán Pálsson skrifar

Fyrir tæpum fimmtíu árum rændi hinn dularfulli þjóðflokkur Grandóníumanna íslenskum vísindamanni og íturvaxinni dóttur hans og hélt með til fjalla. Í kjölfarið var sendur út herflokkur sem arkaði um Þjórsárdal til að heimta feðginin úr helju, sem tókst eftir snarpan bardaga við fjallabúana vígreifu.

Þessi flétta var ekki í barnabók eftir Ármann Kr. Einarsson eða óvenjuslappri hasarmynd úr Hollywood, heldur raunveruleg lýsing á heræfingum Breta í Þjórsárdal sumarið 1969. Sjaldan hefur komið jafn skýrt í ljós hversu lítill munur er í raun á heræfingum stórveldanna og stríðsleikjum ungra drengja. Fáránlegir hlutverkaleikir hafa löngum fylgt æfingum af þessu tagi. Skemmst er að minnast æfingarinnar „Norðurvíkingur“ (nafngiftin segir í raun allt sem segja þarf) þar sem Nató-hermenn börðust við ímyndaða umhverfishryðjuverkamenn sem áttu að hafa hertekið Steingrímsstöð í Sogi! Eða þá þegar bandarískar herþyrlur ætluðu að æfa lendingar í Hljómskálagarðinum um aldamótin, en voru stöðvaðar af íslenskum friðarsinnum.

Nú berast fréttir af fyrirhuguðum Nató-heræfingum hér á landi síðar í haust. Þar á meðal í Þjórsárdal og víða á Reykjanesskaga. Hinn ímyndaði óvinur verður þó ekki Grandóníumenn heldur ótilgreindir hryðjuverkamenn, enda hefur mestallur fjáraustur í vígvæðingu síðustu ára verið réttlættur með „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Eftir sem áður eru stríðsleikir þessir ekki annað en nákvæmlega það: fullorðið fólk í fokdýrum byssuleik að undirbúa sig fyrir alvöru dráp á raunverulegu fólki. Höfnum öllum heræfingum!

Höfundar eru ritari og formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×