Skoðun

Milligjöld lækka – loksins

Andrés Magnússon skrifar
Í samráðsgátt stjórnarráðsins hafa verið sett til kynningar drög að frumvarpi til laga um milligjöld í kortaviðskiptum. Þegar frumvarpið verður að lögum, sem mikilvægt er að verði á vorþingi 2019, verður búið að binda í lög hámörk s.k. milligjalda í kortaviðskiptum. Milligjöld eru þau gjöld sem m.a. verslunar- og þjónustufyrirtæki greiða til greiðslumiðlunarfyrirtækja við sérhverja greiðslu sem fram fer með greiðslukortum. Við breytinguna verður hámark þessara gjalda í debitkortaviðskiptum 0,2% af fjárhæð þeirrar vöru eða þjónustu sem keypt er. Sambærilegt hlutfall í kreditkortaviðskiptum verður 0,3%.

Áralöng barátta

Það sætir óneitanlega tíðindum að þessi frumvarpsdrög eru nú komin fram. Baráttan gegn háum milligjöldum í kortaviðskiptum er nefnilega eitt dæmi af mörgum um hversu hagsmunagæsla fyrir atvinnulífið getur verið mikið langhlaup. Baráttuna gegn þessum gjöldum má rekja allt aftur til ársins 2002 þegar Evrópusamtök verslunarinnar – EuroCommerce –, sem SVÞ eru aðilar að, lagði fram formlega kvörtun til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna gjaldanna. Kvörtun EuroCommerce laut fyrst og fremst að því samráði sem kortafyrirtækin höfðu um milligjöldin og þ.a.l. hversu íþyngjandi þau voru fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki í Evrópu. Kvörtun þessi varð upphafið að málarekstri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gegn hinum alþjóðlegu kortafyrirtækjum, sem stóð um árabil og lauk ekki fyrr en með dómi Evrópudómstólsins, sem kveðinn var upp í september 2014. Í framhaldi af þeirri dómsniðurstöðu hófst vinna við lögfestingu reglna um hámark milligjaldanna. Hafa nú þegar verið lögfestar reglur um hámark milligjalda í nær öllum EES-löndum og hillir nú loksins undir að þessar reglur verði einnig lögfestar á Íslandi.

Gífurlegar upphæðir

Það eru gífurlegar upphæðir sem verslunar- og þjónustufyrirtæki vítt og breitt um Evrópu hafa greitt í formi milligjalda á undanförnum árum og áratugum. Í þeim heimi örra breytinga sem verslunar- og þjónustufyrirtæki starfa í, er eitt allra mikilvægasta verkefnið að jafna samkeppnisskilyrðin. Lögfesting reglna um hámark milligjalda er eitt skrefið í þá átt, og því er afar brýnt að þetta lagafrumvarp fái eins skjóta afgreiðslu á Alþingi og kostur er.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×