Skoðun

Jafnrétti er okkur mikilvægt

Jón Atli Benediktsson skrifar
Háskóli Íslands fagnaði þeim mikilvæga áfanga nýlega að hljóta jafnlaunavottun. Við erum afar stolt af þessari viðurkenningu enda langfjölmennasta stofnunin hér á landi til að fá slíka vottun. Þar að auki skiptir það okkur miklu máli að stofnun eins og Háskóli Íslands sé í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum, hvort sem um er að ræða í kennslu eða rannsóknum.

Við hófumst handa við innleiðingu um leið og lög þess efnis voru staðfest í júní 2017. Við framkvæmdum meðal annars umfangsmikla launagreiningu sem náði til nærri 5.000 starfsmanna. Greiningin leiddi í ljós að launamunur, eftir að tekið hafði verið tillit til stöðu í skipuriti og starfsheitis, var um 1,5% konum í óhag. Þessi munur var af vottunaraðila metinn innan skekkjumarka en launamunurinn er 3,3% að jafnaði hjá opinberum starfsmönnum, konum í óhag. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í Háskóla Íslands að vinna stöðugt að því að kynbundinn launamunur þrífist ekki. Þess vegna höfum við innleitt launakerfi sem ætlað er að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun.

Jafnrétti er eitt af þremur gildum Háskóla Íslands. Til þess að ná raunverulegum árangri í jafnréttismálum verðum við sífellt að horfa á stöðuna með gagnrýnum augum, til dæmis á þá staðreynd að þegar ekki er tekið tillit til stöðu í skipuriti og starfsheitis er munur á heildarlaunum karla og kvenna um 10%, konum í óhag. Það bendir því miður til þess að hefðbundin störf karla séu metin hærra en hefðbundin störf kvenna. Þá er mikilvægt að tryggja að karlar og konur hafi jafna möguleika á akademískum framgangi.

Um leið og það er mikilvægt fyrir okkur að hafa náð jafnlaunvottun, þá verðum við að muna að hún er ekki markmið í sjálfu sér og má ekki vera notuð sem hvítþvottur á gagnrýna umræðu um jafnréttismál. Vottunin er frekar varða á mun stærri og mikilvægari vegferð, sem er að ná raunverulegu jafnrétti í allri starfsemi Háskóla Íslands.

Höfundur er rektor Háskóla Íslands




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×