Skoðun

Greta

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Flestir eru sammála um að það er ekki rétt að láta börn um að stjórna veröldinni. Án þess að fullyrða um of, þá skiptir reynsla og þekking máli þegar ákvarðanir eru teknar sem varða af komu, líf og heilsu heilu þjóðanna. Þar fyrir utan er sjálfsagt mál að leyfa börnum og unglingum að njóta frelsis æskunnar, nægur tími til að takast á við áhyggjur fullorðinsáranna.

En þó börn eigi ekki að stjórna þá er ekki þar með sagt að ekki eigi að hlusta á það sem þau segja. Dæmið um Gretu Thunberg er sláandi og um margt einstakt. Greta er ekki að berjast til valda, hún er að krefjast þess að við gerum allt sem mögulegt er til að mannkynið valdi ekki hlýnun jarðar sem leiði til margvíslegra hörmunga, efnahagslegra jafnt sem mannlegra.

Nú getur menn sjálfsagt greint á um hversu mikil áhrif mannkynið hefur á hlýnun loftslagsins. En meirihluti vísindamanna hefur fært fyrir því afar sannfærandi rök að við mennirnir höfum mikil áhrif á þessa þróun og það er krafa Gretu að við hlustum á þessa vísindamenn og breytum í samræmi við þá þekkingu.

Þessi krafa Gretu er fullkomlega skiljanleg. Við kennum jú börnunum okkar það að það eigi að hlusta á vísindamenn, að vísindin eigi að ráða för og í þessu máli er öll veröldin undir, hvorki meira né minna. Það er því ekki skrítið að þúsundir og aftur þúsundir ungmenna hafi tekið undir með Gretu og krafist þess að við rænum þau ekki framtíðinni, að það verði morgundagur sem þau geti sannarlega kallað sinn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×