Skoðun

Sjötugur unglingur

Tómas Guðbjartsson skrifar

Það var vel til fundið hjá Fréttablaðinu að hafa forsíðumynd frá 70 ára afmælistónleikum Sinfó í gær. Hvílíkir tónleikar þar sem Augustin Hadelich fór á kostum í fiðlukonsert Sibelíusar og aukalagið eftir gítarsnillinginn Fransico Tarrega í fiðluútfærslu með þeim betri sem ég hef heyrt. 

Mahler 1 var líka frábær undir stjórn Eva Ollikainen og Páll Ísólfsson spennandi. Sinfó er klárlega eitt af því sem lífgar upp á tilveru okkar Íslendinga og maður er stoltur af því hversu góð hljómsveitin er. Sama á við um Hörpu sem opnaði 2011 og er forsenda þess að hljómsveitin geti haldið sér í hópi þeirra bestu. Því er mikilvægt að stjórnvöld og Borgin tryggi rekstrargrundvöll Hörpu og lækki fasteignagjöldin sem eru að sliga þetta mikilvæga menningarmusteri. 

Sem betur fer fækkar þeim röddum sem bölsótast út í Hörpu og Sinfó - en merkilegt nokk skýtur umræðan þó alltaf upp kollinum af og til - líkt og gagnrýni á sjálfsögð listamannalaun. Þetta er skammsýn gagnrýni sem lækkar flugið þegar listamenn eins og Hildur Guðnadóttir og Andri Snær Magnason, sem þegið hafa slík laun, skila verkum sem vekja heimsathygli. 

Sama á við um fyrirbæri eins og Sinfó sem endurtekið vekur verðskuldaða athygli erlendis - hljómsveit sem aldrei getur, og á ekki, að standa undir sér fjárhagslega. Því eins og kemur fram í vandaðri afmælistónleikaskrá Árna Heimis Ingólfssonar þá var skrifað í eitt Reykjavíkurblaðanna 1951 í tilefni af gagnrýni á kostnað við stofnun Sinfó:

„Það eru þó, þegar á allt er litið, fyrst og fremst menningarleg og listræn afrek íslensku þjóðarinnar, sem hafa skipað henni virðingarsess á meðal þjóðanna, en ekki baráttan fyrir munni og maga, svo nauðsynleg sem hún er". Þetta á ekki síður við í dag.

Höfundur er hjartaskurðlæknir og umhverfisverndarsinni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×