Skoðun

Hverju myndir þú sjá eftir í lífinu?

Bergsveinn Ólafsson skrifar

Fráfall Kobe Bryant lét mig hugsa um dauðann, sem hræðir marga. Hvort sem við hugsum um hann eða ekki þá er hann alltaf að birtast okkur í fréttum, sögum um líf annarra, áhyggjum varðandi okkar heilsu, athyglinni okkar í umferðinni eða þegar við eigum afmæli. Við eyðum mikilli orku í að forðast dauðann og hann umlykur allt sem við gerum, ómeðvitað eða meðvitað.

Hugsanir um dauðinn eru krefjandi fyrir marga þar sem hann vekur upp ótta, sársauka, rugling og stress. Dauðinn er hins vegar óumflýjanlegur hluti af tilverunni. Hann er það eina sem er víst að gerist í þessum heimi. Versta er eflaust óvissan sem fylgir honum. Við getum ekki vitað hvenær eða hvernig dauðinn mun banka á dyrnar hjá okkur og okkar nánustu. Við getum hins vegar notað dauðann til að hvetja okkur að gera það sem skiptir okkur máli í lífinu.

Að nýta hvert augnablik til hins ýtrasta. Að efla tengslin við vini, maka og foreldra. Að verja minni tíma í óþarfa áhyggjur. Að hætta að bíða eftir að hafa tíma í hlutina og gera þá. Að segja óttanum að halda kjafti og ganga í augun á honum. Að vera trúr sjálfum sér. Að umkringja sig fólki sem lætur sér líða vel. Að segja sannleikann. Að taka lífinu ekki of alvarlega. Að lifa hvern einasta dag eins og hann sé sá síðasti.

Ég las einhvers staðar fyrir mörgum árum að við eigum tvö líf og það seinna byrjar þegar við áttum okkur á að við eigum bara eitt. Lífið er allt of stutt til að eyða því í óþarfa kjaftæði. Við getum ekki stjórnað hvenær dauðinn mun banka á dyrnar en við getum stjórnað hvort við höfum dyrnar lokaðar eða opnar þegar við erum á lífi. Dauðinn getur verið hvetjandi eða letjandi, þitt er valið.

Hverju myndir þú sjá eftir í lífinu?

Höfundur er fyrirlesari.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×