Skoðun

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Mjög villandi umræða og beinlínis röng, hefur fengið vængi í fjölmiðlum hvað varðar rétt til töku fæðingarorlofs undir nálgunarbanni. Að því tilefni er ég knúin til að rita nokkur orð til þess að leiða umræðuna á rétta braut.

Í frumvarpi til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof, eins og það var lagt fram fyrir Alþingi var í upphafi að finna ákvæði sem hljóðaði á um að þegar annað foreldri lúti nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili skyldi réttur þess foreldris til töku orlofs samkvæmt lögunum færast yfir til hins foreldrisins. Undir meðferð málsins fyrir velferðarnefnd Alþingis var vakin athygli á því að vegna þess hvernig framkvæmd sé háttað í málum er varði nálgunarbann væri sjaldgæft að foreldri sætti nálgunarbanni gagnvart ungu barni sínu. Mögulega þyrfti að breyta ákvæðinu á þá leið að einnig féllu undir ákvæðið þær aðstæður þegar foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu.

Rétt skal vera rétt

Við þriðju umræðu málsins á Alþingi lagði meirihluti velferðarnefndar fram breytingartillögu sem hljóðar á um að ákvæði þetta nái einnig til þess þegar annað foreldrið sæti nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Sú breytingartillaga var samþykkt og gildir því ákvæðið nú um bæði nálgunarbann gagnvart barni og/eða foreldri. Umræða síðustu daga hefur haldið öðru fram og skal það leiðrétt hér.

Þessu til viðbótar var með samþykkt breytingartillögunnar sett inn bráðabirgðaákvæði sem hljóðar upp á það að starfshópur verði skipaður á vegum félags- og dómsmálaráðuneyta. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða hvort og/eða hvernig breyta skuli lögum í því skyni að ákvæðið nái markmiðum sínum. Störfum starfshópsins skal ljúka eigi síðar en 1. apríl 2021, með frumvarpi að lagabreytingum verði þess þörf.

Með þessari breytingatillögu sem samþykkt var af Alþingi er tryggt að ákvæðið gildir um foreldri sem sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða hinu foreldrinu. Tilgangur skipunar starfshópsins er að kanna frá öllum hliðum hvort og þá hvernig betur megi skerpa á bæði lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um nálgunarbann í þeim tilgangi að markmiðum og tilgangi beggja laga sé náð með sem bestum hætti.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×