Skoðun

Hver eru áhrif Covid-19 á konur?

Stella Samúelsdóttir skrifar

Áhrif Covid-19 faraldurins á heimsbyggðina eru auðséð. Hins vegar eru sértæk áhrif á konur ekki eins sýnileg.

Neyð hefur nefnilega ólík áhrif á ólíka hópa, kvenna og karla. Það er staðreynd að í neyð sem þessari eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi og því miður fer tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgandi með hverjum deginum um allan heim. Á meðan Covid-19 faraldurinn gekk sem harðast um Kína og útgöngubann ríkti, þrefölduðust tilkynningar vegna heimilisofbeldis á fjölda lögreglustöðva þar í landi og tölur frá Frakklandi sýna nú þegar 30% aukningu á tilkynningum.

Á heimsvísu sinna konur 70% starfa í framlínu heilbrigðis- og félagsþjónustu ásamt því að verja þrefalt meiri tíma í ólaunuð umönnunarstörf en karlmenn,. Á íslandi eru 85% heilbrigðisstarfsfólks konur, sem nú eru í framvarðasveit við að bjarga mannslífum. Reynslan af fyrri farsóttum (Ebóla og Zika) sýnir að þau sem sinna þessum störfum eru mun útsettari fyrir sýkingum.

Faraldurinn hefur mun meiri áhrif á tekjur kvenna en karla. Konur sem starfa við takmarkað atvinnuöryggi, svo sem á tímakaupi, í þjónustustörfum og sem heimilishjálpir verða verst úti fjárhagslega sem veldur því að þær geta ekki framfleytt fjölskyldum sínum á þessum erfiðu tímum.

UN Women stendur vörð um réttindi kvenna og stúlkna ekki síst á tímum kreppu, í neyð og þegar heimsfaraldrar geysa, líkt og nú.

Í yfirlýsingu sinni, minnir Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women stjórnvöld ríkja heims á að setja upp kynjagleraugun, þrátt fyrir tímapressu og hröð handtök. „Takið mið af þörfum kvenna og stúlkna í viðbragðsáætlunum. Tryggið að fjármagn ríkisstjórna til aðgerða vegna Covid-19 feli í sér aukið fjármagn til kvennaathvarfa og kvennasamtaka svo þau séu í stakk búin til að taka á móti fleiri konum sem flýja heimilisofbeldi. Komið í veg fyrir tekjuskerðingu og tryggið réttindi kvenna á vinnumarkaði og vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta og á ótryggum starfssamningum og því verst út settar fyrir uppsögnum.“

Stjórnvöld ríkja heims eru í þessum skrifuðu orðum að bregðast við útbreiðslu og áhrifum Covid-19 faraldursins. Við vitum að stefnumarkandi ákvarðanir sem ekki byggja á kynjaðri nálgun skila einfaldlega minni árangri í þágu okkar allra.

Um leið og við hjá UN Women á Íslandi fögnum þeim aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hafa sett fram, þá viljum við hvetja þau sérstaklega til að safna kynjuðum gögnum á meðan faraldrinum stendur, að viðbragðsáætlanir hafi sjónarmið allra kvenna að leiðarljósi, að fjármagni sé veitt til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og til að bregðast við því, að kyn – og frjósemisþjónusta til kvenna skerðist ekki og að sérstakt tillit sé tekið til þarfa jaðarsettra kvenna í íslensku samfélagi, þá sérstaklega fatlaðra kvenna og kvenna af erlendum uppruna. Síðast en ekki síst að það fjárfestingarátak sem hið opinbera ræðst í til að byggja upp samfélagið, fari ekki einvörðungu í karllægari atvinnugreinar heldur styrki líka atvinnugreinar sem eru bornar uppi af konum.

Þau sem vilja leggja verkefnum UN Women lið tengdum Covid-19 er bent á heimasíðu samtakanna.

Höfundur er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×