Skoðun

Áður í Eden

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir skrifar

Mörg eigum við góðar minningar um ísbíltúr í Hveragerði. Gott stopp í Eden þar sem hægt var að skoða blómin í gróðurhúsinu, fá sér að snæða, njóta myndlistar og fá sér sæti með fjölskyldunni í básunum góðu.

Fram undan er mikið ferðasumar. Íslendingar munu eflaust nýta fyrripart sumars til að heimsækja landið sitt eins og síðasta sumar. Hveragerði er mikill heilsu og menningarbær sem hefur margt upp á að bjóða. Náttúrufegurðin er allsráðandi í Hveragerði og má þar finna fjölmarga göngu- og hjólreiðastíga. Nú standa yfir endurbætur á búningsklefum Sundlaugarinnar Laugaskarði en vonir standa til að hægt verði að opna í júní.

Meira af menningu.

Í Hveragerði má finna Listasafn Árnesinga sem heldur úti metnaðarfullum listviðburðum allt árið um kring. Nýtt svið er í undirbúningi í Lystigarðinum við Varmána. Leikfélag Hveragerðis er öflugt áhugamannaleikfélag sem frumsýndi á dögunum leikritið „Nei ráðherra“ í leikstjórn Arnar Árnasonar. Við erum lánsöm að eiga hér öflugt tónlistarfólk sem eflaust nýta nú tækifæri og halda tónleika sem aldrei fyrr. Matarmenningin blómstrar, nýr heilsumatarvagn, kaffihús í dalnum og mathöll í miðbænum. Nýtt hótel opnar í júní sem er ánægjuleg viðbót við rótgróna og góða gistimöguleika bæjarins.

Hreyfing

Fram undan er Hengill Ultra sem er haldið í tíunda sinn. Þar er keppt í utanvegahlaupi, því stærsta sinnar tegundar á Íslandi, með yfir 1300 keppendur sem keppa í mismunandi vegalengdum. Eftir rólega viðburðatíð vegna heimsfaraldurs verður ánægjulegt að sjá fólk koma saman og takast á við markmiðin sem þau hafa eflaust undirbúið í þó nokkurn tíma.

Það verður eflaust líflegt í blómabænum í sumar enda erum við flest eflaust full tilhlökkunar að upplifa og njóta og skapa nýjar góðar minningar. Hápunktur sumarsins í Hveragerði verður bæjarhátíðin „Blómstrandi dagar“ þar sem bæjarbúar og gestir gera sér glaðan dag í fallega heilsu og menningarbænum.

Höfundur er bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×