Skoðun

Yfirsjón Morgunblaðsins

Björn Leví Gunnarsson skrifar

Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag skrifar Andrés Magnússon um ákaflega erfiða stjórnarmyndun og segir þar meðal annars:

„Á hinn bóg­inn væri svo auðvitað hægt að reyna að mynda rík­is­stjórn án Sjálf­stæðis­flokks­ins, en hún þyrfti þá að vera fimm flokka hið minnsta, en þar yrðu Pírat­ar á meðal, sem óvíst er að myndu þola stjórn­ar­sam­starf vel. Eða aðrir flokk­ar sam­starfið við þá.“

Í fyrsta lagi er það rangt, eins og ritstjóri Kjarnans bendir á - fjögurra flokka stjórn út frá þessari skoðanakönnun er möguleg án Sjálfstæðisflokksins. Í öðru lagi að þá er það fullyrðingin um að Píratar myndu ekki þola stjórnarsamstarf vel eða aðrir flokkar samstarf við Pírata.

Í fyrsta lagi er auðvitað auðvelt að benda á samstarfið í borginni sem gengur bara mjög vel. Það eitt og sér ætti að afsanna þessa fullyrðingu. Í öðru lagi er hægt að útskýra þetta sjónarmið með orðum annars ritstjóra Stundarinnar - þar sem það er ágætlega útskýrt hvers vegna sumir aðrir flokkar (það kæmi kannski fólki á óvart hvaða flokkar það eru) þola ekki Pírata. Það sem skiptir máli þar eru auðvitað ástæðurnar fyrir pirringnum og farið er yfir góðan hluta þeirra í grein Stundarinnar.

Píratar eru nefnilega með mjög einfalda kröfu um að bæta stjórnmálin og auka lýðræðið - sem tekur völdin frá flokkum sem alla jafna vilja bara ráða öllu eftir eigin geðþótta.

Ég tek því undir með Andrési Magnússyni, ekki um að það verði ákaflega erfitt að mynda stjórn - heldur að það verði ákaflega erfitt að mynda stjórn án Pírata. Því eina leiðin til þess að draga stjórnmálin inn í nútímann, með þátttökulýðræði, gagnsæi og stjórnmálum án sérhagsmunatengingar - er að kjósa Pírata. Stór hópur Pírata á Alþingi er lykillinn að því að draga hina flokkana úr klassískri skotgrafarpólitík þar sem góðum málum er fórnað í pólitískum hanaslag.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að sumir flokkanna hafa engan áhuga á að gera betur. Þeir munu æmta og skræmta á hæl og hnakka. Verði þeim bara að góðu með það bara. Ég vil gera hlutina öðruvísi og ég veit að það er erfitt. Á sama tíma er það líka nauðsynlegt því sömu flokkarnir við stjórnvölinn - aftur og aftur - eru ekki að fara að gera neitt nýtt.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×