Skoðun

Eru launa­hækkanir að sliga ís­lenskt at­vinnu­líf?

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar

Ef við byrjum að fara yfir nokkrar staðreyndir. Staðreyndir sem virðast flækjast mikið fyrir nýkjörnum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og stjórnendum fyrirtækja sem og Seðlabankastjóra, Viðskiptaráði og SA.

Af hverju er verðbólga að aukast á Íslandi?

Hér eru nokkrar staðreyndir.

  1. Verðbólga í evrópu hefur sjaldan verið meiri og mælist um 6% í USA. Þrýstingur á verðlagshækkanir vegna þess, og vegna mikilla hækkana á hrávöru, orku og eldsneytisverðs hefur þrýst mikið á innlenda verðbólgu og mun gera það áfram.
  2. Fyrirtækin skulda meira heldur en heimilin og eru með mikið af sínum skuldum í formi yfirdráttarlána. Vaxtahækkanir munu því þrýsta á verðlag og verðbólgu vegna aukins vaxtakostnaðar fyrirtækja og minni kaupmátt heimila sem þrýstir á hærri laun til að standa undir hærri kostnaði við að lifa.
  3. Miklar hækkanir á húsnæðismarkaði og gengissveiflur, en húsnæðisverð hefur hækkað um 17% síðustu 12 mánuði, hafa keyrt verðbólguna langt yfir markmið Seðlabankans. Ekki launahækkanir.
  4. Sú launastefna sem hefur verið rekin síðustu 12 ár hefur skilað 4% kaupmætti að jafnaði á ári án þess að hér hafi verið mikil verðbólga.
  5. OMX10 hlutabréfavísitalan hefur hækkað um 33% frá áramótum. Ef launakostnaður væri svona íþyngjandi hjá fyrirtækjunum þá hefði hagnaður þeirra átt að lækka en hann hefur þvert á móti hækkað og afkoma fyrirtækja sjaldan eða aldrei verið betri. Miðað við uppgjör fyrirtækja í kauphöllinni þá geta þau vel staðið undir hækkun launa. Þessar staðreyndir benda ekki til þess að fyrirtækin séu að kikna undan launakostnaði eða trú markaðarins að kjarasamningar og hagvaxtarauki munu ganga af þeim dauðum.
  6. Launakostnaður skráðra fyrirtækja á markaði hefur lækkað sem hlutfall af veltu.

Þrátt fyrir það sem lýst er að ofan glymja í fréttum að komandi launahækkanir mun sliga fyrirtækin hér á landi! Þennan söng höfum við oft heyrt áður og var hann nokkuð hávær fyrir síðustu kjarasamningsbundnu launhækkanir.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að samningsbundnar launahækkanir muni auka launakostnaðinn hjá Festi hf. (Krónan, N1, Elko) um 9% og má skilja að það hafi ekki efni á að hækka launin á næsta ári án þess að hækka vöruverð eða að segja upp starfsfólki. Þó öðru máli gegni um bónusgreiðslur og ofurlaun til æðstu stjórnenda. Skoðum aðeins hvað þetta þýðir fyrir þetta góða fyrirtæki. 9% hærri launkostnaður fyrir Festi er hækkun á launakostnaði um 910 m.kr. á tólf mánaða tímabili.

Hagnaður Festis hf. fyrstu níu mánuð þessa árs var 3,6 milljarðar á meðan hann var 1,7 milljarður árið á undan og árið 2019 var hann um 2 milljarðar. Hagnaður hefur aukist um 1,9 milljarða milli ára eða um 106% frá árinu á 2020 og frá 2019 hefur hagnaður aukist um 73% eða um 1,6 milljarða. Eins og sést á þessum tölum hefur Festi ráðið vel við þær launahækkanir sem hafa orðið á þessu ári og gert gott betur. Enda metur hlutbréfamarkaðurinn það ekki svo að fyrirtækið sé að sligast undan of miklum launakostnaði en verð þess á hlutabréfamarkaði hefur hækkað um 27% á þessu ári. Miðað við afkomuspá félagsins má áætla að hagnaður þessa árs verði um 4,5 milljarðar sem er aukning frá fyrra ári um 2,2 milljarða eða um 100% aukning á milli ára.

Miðað við afkomu félagsins á þessu ári ræður það mjög vel við komandi launahækkanir á næsta ári. En sá kostnaðarauki er einungis um 40% af þeim hagnaðarauka sem hefur orðið á þessu ári miðað við árið á undan og um 20% af þeim hagnaði sem áætla má að verði á þessu ári. Við getum vel skipt þeim ábata sem hefur orðið til hjá Festi hf. milli starfsmanna og eiganda án þess að hreyfa við vöruverði til neytenda.

Svo má spyrja hvort þessi mikli og aukni hagnaður sé komin til vegna hærri álagningu sem aftur setur þá spurningu fram hvort laun séu að elta verðbólgu eða öfugt?

Það verður spennandi að fara í komandi kjaraviðræður þegar fyrirtækjum eins og Festi hf. gengur jafnvel og raun ber vitni.

Höfundur er formaður VR. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×