Hvorki hefur gengið né rekið hjá Kórdrengjum í Vodafonedeildinni í ár. Liðið sem kom nýtt upp úr fyrstu deildinni fyrir þetta tímabil hefur ekki náð að krækja sér í nein stig þrátt fyrir ágæta spretti á köflum. Þórsarar, sem svo að segja eru einnig nýliðar, eða nýtt lið í öllu falli, hafa hins vegar verið á toppnum frá upphafi þó liðið hafi reyndar lotið í lægra haldi gegn erkióvinunum í Dusty í síðustu umferð. Fyrir fram þótti því nokkuð ljóst að Þórsarar myndu hafa yfirhöndina í leiknum og gekk það eftir.
Liðin mættust í Overpass kortinu og hafði Þór betur í hnífalotunni sem sker úr hvort liðið fær að velja sér hlið í fyrri hálfleik. Þór kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists) eins og flest lið gera og féll það því í garð Kórdrengja að sækja. Í upphafi leiks var ekki að sjá að hér mættust lið sem hefðu verið í topp- og botnbaráttu undanfarna mánuði. Kórdrengir unnu fyrstu lotuna en fóru sér svo of hratt í þeirri næstu sem féll Þór í vil. Hyperactive opnaði næstu lotu örugglega og hún vannst fyrir Kórdrengi, en liðin skiptust á að vinna lotur þar sem þau neyddust til að verja öllum sínum fjármunum í vopnakaup. Liðsmenn Þórs komust þá á lagið í vörninni og komu liði sínu í 8-2 áður en Kórdrengir loks tóku við sér með glæsilegum spretti þar sem þeir hittu á góðar tímasetningar til að jafna metin örlítið. Eftir að Kórdrengir höfðu unnið fjórar lotur í röð og Þórsarar átt í basli með að vopnast almennilega, tókst Þór þó að vinna síðustu lotuna í fyrri hálfleik og fara inn í þann síðari með gott forskot.
Staða í hálfleik: Þór 9 - 6 Kórdrengir
Í síðari hálfleik héldu Þórsarar ró sinni og juku forskotið jafnt og þétt. Þrátt fyrir að Kórdrengir næðu stöku lotum inn á milli var sigurinn þó aldrei í hættu. Efnahagurinn var í toppstandi hjá Þór og enn og aftur var það vörnin sem brást Kórdrengjum þegar á reið. Kórdrengir réðu ekki við þá pressu sem Þór setti á þá og þetta síðasta tækifæri til að sækja sér stig í fyrsta hring deildarinnar rann þeim úr greipum.
Lokastaða: Þór 16 - 10 Kórdrengir
Í augnablikinu er Þórsarar því aftur jafnir Dusty að stigum á toppi deildarinnar, en Dusty á þó leik til góða. Næst leikur Þór gegn Vallea á föstudaginn í næstu viku, en Kórdrengir mæta Fylki, hinu liðinu sem ekki hefur náð góðum árangri á tímabilinu, á þriðjudaginn. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.