Skoðun

Sjálfsmark!

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Í Kastljósþætti RÚV í gærkvöldi, þriðjudag, var rætt um húsnæðisverð og aukna verðbólgu. Þar sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður Framsóknarflokksins, sem einnig er formaður bæjarráðs og varaformaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, að ástæða hækkandi íbúðaverðs væri skortur á íbúðum og lóðum á höfuðborgarsvæðinu. Og of hátt lóðaverð. Gagnrýndi hann Reykjavík í þeim efnum. En passaði sig á því að nefna ekki vægast sagt dapra stöðu í Hafnarfirði í þessum efnum - í hans eigin heimabæ, þar sem hann hefur farið með völd síðustu fjögur árin með Sjálfstæðisflokki.

Bæjarfulltrúinn hefði nefnilega átt að líta sér nær. Hann sem forystumaður og samstarfsmaður Sjálfstæðisflokksins í meirihluta í Hafnarfirði hefði átt að nefna þá staðreynd, að fólki hefur fækkað í Hafnarfirði. Og ástæðan sú sem bæjarfulltrúinn nefndi sjálfur: Skortur á íbúðum og lóðum í Hafnarfirði!

Í Reykjavík og öðrum nágrannasveitarfélögum Hafnarfjarðar hefur verið eðlileg fólksfjölgun á síðustu árum. Þar hefur verið framboð. En ekki í Hafnarfirði. Eftir stöðugan vöxt í 80 ár, þá fækkaði íbúum Hafnarfjarðar í fyrsta skiptið árið 2020 og íbúaþróun er langt undir viðmiðunum og áætlunum.

Ábyrgðin á sleninu og skipulagsleysinu er alfarið Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þegar kemur að húsnæðismálum. Í Hafnarfirði og ekki síður landsstjórninni, þar sem þessir sömu flokkar stjórna. Umbótatillögur Samfylkingarinnar liggja fyrir á landsvísu, svo sem stórhækkun húsnæðis- og vaxtabóta. Í Hafnarfirði munu jafnaðarmenn setja íbúðamálin í forgang vinni þeir sigur í bæjarstjórnarkosningunum í vor.

Í fótboltanum gerist það stundum, að leikmenn slysast til að skjóta boltanum í eigið mark. Það er kallað sjálfsmark. Það var svo sannarlega skorað sjálfsmark í Kastljósinu í gær.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×