Skoðun

Stangast blóðtaka úr merum á við lög?

Björn M. Sigurjónsson skrifar

Í tilefni af þeirri umræðu sem verið hefur um blóðmerar undanfarið misseri, hafa vaknað spurningar um hvort þessi iðja stenst gildandi lög. Hér verða reifaðar nokkur álitamál um blóðmeraiðnaðinn og lagaleg sjónarmið.

Fyrst er að telja lög um dýravernd nr. 55/2013 (dvl.) og reglugerð 910/2014 um hestahald. Megintilgangur dvl. sem er tíundaður í 1. gr.er „að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

Matvælastofnun (MAST) er falið eftirlitshlutverk skv. 4. gr. og matvælaráðherra fer með yfirstjórn málaflokksins. Þá er í 5. gr. dvl., Matvælastofnun skylt að leita álits fagráðs þegar um er að ræða sérstök málefni sem krefjast sérþekkingar t.d. dýralækna.

Sjálf blóðtakan, þegar blóðmeri er komin í blóðtökubás og dýralæknir tekur við og framkvæmir læknisverkið fellur undir dvl. Í 4. tl. 3. gr. er tiltekið að læknisaðgerð feli í sér „aðgerð eða meðhöndlun að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis, þ.m.t. gelding án rofs á húð.“

Blóðtaka fellur einnig undir 13. gr. reglugerðar um hestahald 910/2014, þar sem tiltekið er að dýralæknum sé óheimilt að framkvæma aðrar aðgerðir en þær sem séu í læknisfræðilegum tilgangi. Að lokum má nefna lög um dýralækna 66/1999 og að auki reglugerð 460/2017 um notkun dýra í vísindaskyni, sem hugsanlega gildir um blóðmerahald.

Í dvl 55/2013 er fagráði um velferð dýra falið það verkefni að fjalla um m.a. tilraunir á dýrum. Það gerði fagráðið þ. 28. ágúst 2017 og ályktaði að blóðmerahald og blóðtaka falli undir lög um notkun dýra í vísindaskyni[1]. Ef farið væri að reglugerð nr. 460/2017 (tilraunadýralögin) og ályktun fagráðs stýrði för, væri blóðmerahaldi sjálfhætt með vísan í 1. tl. 10. gr. sem tiltekur að „tilraun skal ekki gerð ef önnur aðferð eða prófunaráætlun, til að ná fram þeim niðurstöðum sem sóst er eftir, sem felur ekki í sér notkun á lifandi dýri, er viðurkennd.“ Nú þegar hefur verið þróuð syntetisk aðferð til framleiðslu á eCG hormónalyfi sem er jafnáhrifarík og blóðmerahalds aðferðin.[2]

Þetta fortakslausa bann við notun dýra í vísindaskyni er svo ítrekað í 20.gr. l.nr. 55/2013 sem tiltekur að „einungis má nota lifandi dýr í tilraunum ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri.“

MAST virðist hafa hafnað þeirri ályktun fagráðsins ad blóðmerahald falli undir notkun dýra í vísindatilraunum þar sem að notkun dýra í lyfjaiðnaði, sem kalla má starfsvenjur í landbúnaði, falla ekki undir gildissvið reglugerðarinnar sbr. 5.tl. 2. gr.

Ef niðurstaðan er sú að rg. 460/2017 gildi ekki um blóðmerahald, gilda því dýravelferðarlög nr. 55/2013 og reglugerð um hestahald 910/2014 auk annarra reglna um læknisverk á dýrum svo sem lög um dýralækna.

Þá koma til álita þær reglur í dvl og rg um hestahald, sem takmarka heimild dýralækna til annars en aðgerða í læknisfræðilegum tilgangi og almennar reglur um velferð hrossa.

Læknisfræðilegur tilgangur er skilgreindur sem greining og meðhöndlun sjúkdóma og áverka á sjúklingi í því markmiði að hann nái heilbrigði. Þó að dýr séu ræktuð til manneldis, er ótvírætt að á meðan þau lifa, er dýralæknum einungis heimilt að lækna þau og halda þeim heilbrigðum. Skyldur dýralækna eru svo skilgreindar í 2. gr. l. nr. 66/1998 að „Dýralæknar og heilbrigðisstarfsmenn dýra skulu standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari og velferð þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra.“

Orðalag 13. Gr. reglugerðar um hesta 910/2014 er ótvírætt að þessu leyti „Ekki má framkvæma aðgerðir á hrossum, þ. á m. á tönnum þeirra, án læknisfræðilegrar ástæðu.“

Dýralæknum eru veittar undanþágur frá skilyrðinu um hinn læknisfræðilega tilgang til dæmis til geldinga, merkinga og röspunar tanna sbr. 13 gr. rg. 910/2014 auk ýmissa annarra læknisverka sem ekki eru beinlínis í þágu heilbrigðis dýrsins og eru tilgreindar í ýmsum reglugerðum. Þessi læknisverk má kalla starfsvenjur í landbúnaði. Blóðtakan nýtur ekki undanþágu hvorki í dvl né reglugerð um hestahald eða öðrum reglum.

Jafnvel þó að tilgreint sé í reglugerð um hestahald að blóðmerahald sé tilkynningaskylt til MAST, og það megi túlka sem lagaheimild fyrir blóðmerahaldi, sbr. viðauka við rg. 910/2014 um hestahald, breytir það ekki því að blóðtakan sjálf sem læknisverk nýtur ekki undanþágu.

Nú liggja fyrir vísindalegar upplýsingar um að magn blóðs sem tekið er úr merunum er umfram heilbrigðismörk og gengur of nærri dýrunum sbr. grein Rósu Lífar Darradóttur læknis[3] og sömuleiðis niðurstöður dýralæknanna Barla Barandun og Prof. Dr. med. vet. Ewald Isenbügel[4]. Blóðtakan fer að því leyti í bága við almennar reglur dvl og reglugerðar um hesta að ekki megi misbjóða velferð þeirra og hið sama við um blóðtökuna sem læknisverk. Hún samræmist illa skyldum dýralækna sem lagðar eru á þá í inngangsgrein dýralæknalaganna. Um þetta þarf ekki að deila.

Jafnvel þó líta megi á aðblóðtakan sé starfsvenja í landbúnaði, leysir það þetta læknisverk ekki undan skilyrðinu um hinn læknisfræðilega tilgang. Svo það standist lög krefst aðgerðin undanþágu frá því skilyrði.

Vilji löggjafans er skýr þegar kemur að íslenska hestinum. Svo ítarleg er reglugerð 910/2014 um hestahald að t.d. er lagt bann við því að þvinga hross í höfuðburð, að þau séu án yfirgangs annarra hrossa, að innréttingar byrgi þeim ekki sýn, að þau megi ekki vera ein, o.s.frv.

Hross skal því meðhöndla af stakri nærgætni með hliðsjón af eðli þeirra og lagt er fortakslaust bann við að misbjóða heilsu þeirra. Þetta samræmist nútímaviðhorfi Íslendinga til íslenska hestsins.

Þar sem ljóst er að undanþáguheimild skortir í reglum fyrir blóðtöku er gagnrýnivert ad MAST hafi talið hana heimila. Samantekið má segja að í besta falli sé um að ræða stjórnsýsluhegðun sem ekki er reist á nægilega traustum lagalegum grunni og að MAST hafi hugsanlega farið út fyrir heimildir sínar og vanrækt að gaumgæfa nánar gildandi lög. Í versta falli er um að ræða gróf brot á lögum um velferð dýra og reglum um hestahald.

Í öllu falli er einboðið er að stöðva blóðtöku úr merum að sinni.

Höfundur er B.Sc, MPhil, ML og starfar sem lektor í Danmörku.


[1]https://www.mast.is/static/files/liblisa/2017/10/25/fundargerdfagradvelferddyra170828.pdf.

[2]https://phys.org/news/2017-09-biotech-hormone-ovulation-livestock.html

[3] https://www.visir.is/g/20212196811d

[4]https://www.visir.is/g/20222205974d/a-lits-gerd-um-heildar-blod-magn-is-lenska-hestsins-magn-og-tidni-blod-toku-og-mogu-leg-a-hrif-hennar-a-fyl-fullar-hryssur-ut-fra-sjonar-midum-dyra-laekna-visinda-og-dyra-verndar?fbclid=IwAR39Vwcr8ANaRUaDt6nqT2s2e5-_1JLUsCHDNqkcghHdMeNefSA9y4-lxgU




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×