Skoðun

Mun þögn Þjóð­kirkjunnar senda tvo menn í fangelsi?

Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar

Nú standa yfir réttarhöld yfir tveimur mönnum sem verða mögulega dæmdir í þriggja ára fangelsi. Í ákærunni er glæpur þeirra sagður sá að svíkja „fjárframlög úr ríkissjóði“ og valda „íslenska ríkinu verulegri fjártjónshættu og fjártjóni í reynd“. Þessi meintu fjárframlög úr ríkissjóði voru sóknargjöld.

Í hvert einasta skipti sem rætt hefur verið um upphæð sóknargjalda á Alþingi hefur yfirstjórn Þjóðkirkjunnar, með biskup í fararbroddi, mótmælt því harðlega að sóknargjöld séu framlög úr ríkissjóði.

Þjóðkirkjan heldur því staðfastlega fram að þetta séu þvert á móti félagsgjöld, sem ríkið er einungis að innheimta fyrir hönd trúfélaganna.

Í nýlegri umsögn biskupsstofu við fjárlög 2022 var meira að segja fullyrt að núverandi fjármálaráðherra hefði viðurkennt að lækkun sóknargjalda væri „ígildi fjárdráttar eða þjófnaðar“ - það er að segja að ríkið væri að stela peningum Þjóðkirkjunnar!

Ef það er rétt, þá eru þessir tveir menn saklausir. Þá voru engin framlög úr ríkissjóði svikin út og ekkert fjártjón sem íslenska ríkið varð fyrir. Þá fengu þessir menn einfaldlega félagsgjöld frá meðlimum í félaginu þeirra, sem ríkið innheimti fyrir þá.

Um þetta hefur verið deilt í réttarhöldunum. Saksóknarinn segir að það sé „lífsseigur misskilningur að ríkið innheimti sóknargjöld“, heldur sé í reynd „um að ræða styrki til trúfélaga sem greiddir séu af almennu skattfé“.

Verjandinn mótmælti og sagði að ríkið „átti sennilegast aldrei neitt tilkall til þessara peninga“, sem er satt og rétt, **ef** sóknargjöld eru félagsgjöld.

Af hverju hefur ekkert heyrst frá Þjóðkirkjunni til varnar þessum mönnum? Jafnvel þó yfirstjórn Þjóðkirkjunnar sé sama um hvort þessir menn muni dúsa nokkur ár í fangelsi eða ekki, hlýtur hún að mótmæla því að núna verði fest með dómi að sóknargjöld séu ríkisstyrkir en ekki félagsgjöld.

Reyndar eru til ein ummæli frá Agnesi biskupi um þetta mál úr viðtali (áður en þetta varð að dómsmáli). Hún sagði að þarna hefði fólk séð „möguleika á því að fá fjármagn frá ríkinu“. Þau ummæli benda reyndar til þess að Agnes líti á sóknargjöld sem framlög frá ríkinu, en ekki félagsgjöld.

Þannig að hugsanlega má skilja þögn Þjóðkirkjunnar sem svo að þau viti vel að þetta séu framlög frá ríkinu, en ekki félagsgjöld, og að fullyrðingar þeirra um “félagsgjöld" séu einungis notaðar þegar Þjóðkirkjan reynir að réttlæta hærri framlög frá ríkinu. Er þögn Þjóðkirkjunnar samþykki?

Höfundur er í stjórn Vantrúar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×