Skoðun

Matvælaframleiðsla í Fjarðabyggð

Stefán Þór Eysteinsson skrifar

Í Fjarðabyggð er fjölbreytt atvinnulíf og stóran hluta þess mynda mjög öflug matvælafyrirtæki. Matvælaframleiðsla í Fjarðabyggð er af ýmsum toga þó óneitanlega sé sjávarútvegurinn stærstur.

Fjarðabyggðarhafnir taka á móti mesta magni uppsjávarfisks allra hafna á Íslandi og því augljóst að sjávarútvegsfyrirtækin á svæðinu framleiða mikinn mat og skapa samhliða því mikil verðmæti. Rannsóknar- og þróunarvinna sjávarútvegsins og vísindasamfélagsins hefur á síðustu árum skilað miklum framförum í vinnslutækni og hafa sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð staðið framarlega í því samstarfi og þannig hafa þau náð að skapa meiri verðmæti úr því sem veiðist. Sjávarútvegur um heim allan stendur frammi fyrir stórum áskorunum og spila loftlagsáhrifin þar stærsta hlutverkið. Óumflýjanlegt er að hækkun sjávarhita og súrnun sjávar mun hafa áhrif á mikilvæga nytjastofna. Mikilvægi sjálfbærrar matvælaframleiðslu hefur því aldrei vegið þyngra en nú.

Fiskeldi er vaxandi iðnaður í Fjarðabyggð og mun sú grein stækka á næstu árum. Í fiskeldinu leynast fjölmörg tækifæri til að framleiða góð matvæli, en eins og í allri annarri matvælaframleiðslu þá þarf að standa rétt að hlutunum. Aukin uppbygging í fiskeldinu þarf fyrst og fremst að vera í sátt og samlyndi við nærumhverfið, þá bæði við samfélögin þar sem uppbyggingin á sér stað og ekki síður í sátt við umhverfið. Því er afar mikilvægt að umhverfisáhrifum sé haldið í lágmarki. Mikið og gott eftirlit er með fiskeldi á Austurlandi sem er lykilatriði í því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Það skiptir öllu máli að tryggja áfram öflugt eftirlit, enda er það hagur samfélagsins, umhverfisins og fyrirtækjanna sem standa að eldinu. Þá er það hitt, að sátt um þessa tegund iðnaðar ríki í samfélaginu, en nýjustu áætlanir um uppbyggingu í fiskeldinu taka ekki mið af því og áætlanir eru uppi um að fiskeldi verða byggð upp í samfélögum sem ekki hafa áhuga á að taka við þeim. Fjarðalistinn hefur barist fyrir því að sveitarfélögin fái skipulagsvald yfir fjörðunum sínum, en það vald er nú alfarið í höndum ríkisins og hafa sveitarfélögin sjálf lítið um það að segja hvar fiskeldinu er komið fyrir. Fjarðalistinni mun halda áfram að þrýsta á ríkisvaldið í þessum efnum, enda mikið hagsmunamál fyrir íbúa Fjarðabyggðar að eiga fulltrúa við borðið þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar.

Landbúnaður hefur alltaf skipað sess í Fjarðabyggð en þó í smærri mynd en hann ætti ef til vill að gera. Mörg tækifæri liggja í Fjarðabyggð til að styðja við og auka hag landbúnaðar og það viljum við gera. Á undanförnum árum hefur heimsfaraldur og nú stríð haft áhrif á bæði matvælaframleiðslu og dreifingu um heim allan og undirstrikar það mikilvægi þess að hlúa að sjálfbærri matvælaframleiðslu í heimabyggð. Þá til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins í heimabyggð en einnig til að stuðla að auknu matvælaöryggi á Íslandi.

Sjálfbær matvælaframleiðsla í heimabyggð er og verður mikilvæg og brýnt er að hlúa áfram að henni. Við í Fjarðalistanum ætlum að halda áfram að styðja við þessa mikilvægu stoð í okkar öfluga samfélagi, með velferð íbúa og umhverfis að leiðrarljósi.

Höfundur er matvælafræðingur og starfar sem verkefnastjóri hjá Matís í Neskaupstað og situr í 1. sæti á framboðslista Fjarðalistans í Fjarðabyggð




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×