Skoðun

Fjárfestum í leikskólum

Auður Brynjólfsdóttir skrifar

Það er löngu orðið tímabært að taka á leikskólamálum í Hafnarfirði og við í Samfylkingunni erum svo sannarlega tilbúin í þá vegferð. Fjárfesting í leikskólanum skilar sér margfalt til baka til samfélagsins og við eigum að leita allra leiða til að efla og styðja við starfið. Það þarf að leysa mönnunarvanda leikskólanna; fá fleira fólk inn og fjölga tækifærum núverandi starfsfólks til að bæta við sig þekkingu, efla færni sína í starfi og til að bæta kjör sín.

Bætt starfsumhverfi

Það verður að bæta starfsumhverfi leikskóla með hagsmuni barna og starfsfólks að leiðarljósi. Það verður t.d. að passa að ekki séu of mörg börn í hverju rými, fjöldinn verður að vera í samræmi við stærð rýmis og það mega ekki vera of mörg börn á hvern starfsmann. Þannig tryggjum við að nemendur fái þann stuðning sem þeir þurfa og tryggjum öryggi þeirra.

Að slá ryki í augu kjósenda

Nú styttist í kosningar og þá birtist Sjálfstæðisflokkurinn með lausnir í leikskólamálum en þá ber að líta til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt fræðsluráði Hafnarfjarðar í átta ár. Honum hefði því verið lófa lagið að koma þessum lausnum til framkvæmda en það hefur hann ekki gert. Þess í stað slær hann ryki í auga kjósenda með því að lofa öllu fögru korteri í kosningar.

XS að sjálfsögðu!

Við í Samfylkingunni ætlum að efla fyrsta skólastigið enn frekar í samstarfi við foreldra og starfsfólk leikskólanna eftir bæjarstjórnarkosningarnar. Viljir þú bæjarstjórn sem annt er um öflugt og faglegt leikskólastarf þá setur þú X við S í bæjarstjórnarkosningunum 14. maí næstkomandi.

Höfundur er í 7. sæti hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×