Skoðun

Hroki lista­kvenna

Helgi Sæmundur Helgason skrifar

Í tilefni umræðu fjölmiðla síðustu daga um stuld listakvennanna Bryndísar Björnsdóttur og Steinunnar Gunnlaugsdóttur á verki Ásmundar Sveinssonar afa míns Fyrstu hvítu móðurinni vil ég nefna nokkur atriði. Eins og eðlilegt er hefur athygli fjölmiðla einkum beinst að þjófnaðinum á verkinu og viðmælendur lýst hneykslan sinni á honum, þ.á.m. Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra í viðtali við Bítið á Bylgjunni þann 19. apríl sl. Sama dag fjallar Eiríkur Þorláksson listfræðingur um málið í vandaðri grein í Fréttablaðinu. Greinin nefnist „Þú skalt ekki stela“ og þar segir hann m.a. að málið sé í eðli sínu einfalt því það snúist í grunninn um þjófnað. Í viðtalinu við Lilju tekur hún undir þessi orð Eiríks, frá hennar sjónarhorni er málið einfalt – það er bara ekki leyfilegt að stela.

Ekki er laust við að gætt hafi svolítið háðsks tóns í umfjöllun sumra fjölmiðla um málið síðustu daga. Það er vegna þess að um of hefur verið einblínt á stuldinn sem slíkan og málið því orðið fyrst og fremst spaugilegt í hugum fólks. En jafnvel þótt mörgum finnist þetta mál ósköp einfalt og jafnvel bjánalegt þá eru á því margar hliðar eins og Eiríkur rekur svo vel í grein sinni. Það sem mig langar að vekja sérstaka athygli á er að þær Bryndís og Steinunn virðast ekki efast eitt augnablik um að það hafi verið allt í lagi að stela verkinu. Gott og vel – það má hlæja að þessu og kalla þetta rugl en staðreyndin er sú að fyrir þeim var það fullkomlega réttlætanlegt að stela verkinu. Það er vegna þess að þær eru sannfærðar um að verkið sé rasískt og það trompar glæpinn – að stela. Hver mótmælir því að réttlætanlegt sé að stela rasískri list í opinberu rými og lýsa því yfir að best færi á að eyðileggja hana eða a.m.k. fjarlægja hana? Rasísk list á einfaldlega ekkert erindi í opinberu rými og skiptir þá engu máli hvort um sögulega list er að ræða eða samtímalist. Hér má nefna að á seinni árum hefur óþol gagnvart rasískri list í almannarými aukist mjög eins og nýleg niðurbrot á styttum af herforingjum í þrælastríðinu sýna vel. Þær styttur eru rasískar af því að þær upphefja menn sem voru rasistar og iðkuðu þann ósóma í störfum sínum.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt má ljóst vera að kjarni þessa leiðinlega máls er ekki stuldurinn sem slíkur heldur spurningin hvort Fyrsta hvíta móðirin sé rasísk stytta. Í fyrri grein minni „Feilskot við Nýló“ sem birtist á Vísi þann 13. apríl sl. færði ég rök fyrir því að svo sé ekki. Mig langar núna að gera aðeins ítarlegri grein fyrir máli mínu og draga rökin svolítið betur saman.

Rök þeirra Bryndísar og Steinunnar fyrir því að Fyrsta hvíta móðirin sé rasísk stytta felast í titli hennar, ekki myndefninu sem slíku. Í viðtali við Vísi þann 11. apríl sl. spyr blaðamaður listakonurnar hvort ekki megi deila um hvort verkið sé rasískt og svara þær því þá til að „titillinn einn og sér gefi til kynna að verkið byggist á kynþáttafordómum.“ Af þessu má ljóst vera að það er fyrst og fremst titillinn á verkinu sem stuðar listakonurnar, a.m.k. hvað hinn meinta rasisma varðar. Nú er það alveg augljóst að vísunin til hvíts húðlitar Guðríðar dugar ekki ein og sér til þess að hægt sé að draga þá ályktun að titill verksins sé rasískur. Grundvallaratriði í rasisma er mismunun, að einn kynþáttur sé öðrum fremri en ekkert í titli verksins bendir til að það sé meining þess.

En ef rasisminn í verkinu er ekki augljós af titlinum gæti þá ekki samt verið að meining verksins sé rasísk? Víst er að rasismi var á miklu flugi árið 1938 þegar Ásmundur mótaði verkið. Getur ekki verið að Ásmundur hafi a.m.k. á þessum tímapunkti verið hallur undir rasisma? Því er til að svara að við sem þekktum Ásmund vitum að svo var ekki. Auðvitað eru verk Ásmundar sjálfs besti vitnisburðurinn um lífsskoðanir hans og óhætt að taka undir með Eiríki Þorlákssyni að ekkert þeirra bendi í átt til rasisma. Þá bendir Eiríkur á að ekkert í þeim heimildum sem til eru um Ásmund, þ.á.m. viðtölum, styðji þá kenningu að hann hafi verið rasisti. Eiríkur skrifar: „Þeir sem þekkja verk og sögu Ásmundar verða væntanlega forviða yfir að heyra slíka fullyrðingu; að listamaðurinn sem skapaði mörg eftirminnilegustu verk íslenskrar listasögu til heiðurs lífsbaráttu alþýðufólks og einkum kvenna (til dæmis Vatnsberann, Fýkur yfir hæðir, Móðir mín í kví kví) hafi verið rasisti?“

Ég hef nú fært rök gegn þeirri skoðun að Fyrsta hvíta móðirin sé rasískt verk. Þær Bryndís og Steinunn eru annarrar skoðunar og að sjálfsögðu hafa þær fullan rétt til þess. Ef þær upplifa verkið sem rasískt þá verður svo að vera. Þær geta sjálfar útskýrt hvað þær eiga við með því. Skilaboðin með hinu nýja verki þeirra við Nýló Farangursheimild eru hins vegar ekki aðeins þau að verkið sé rasískt heldur sé sá skilningur á verkinu hinn eini rétti og þar með sá skilningur sem Ásmundur sjálfur lagði í verkið á sínum tíma. Eða hvernig á að skilja yfirlýsingu listakvennanna um að best færi á því að eyðileggja verkið (breyta því í geimrusl) öðruvísi en sem svo að engin önnur túlkun á verkinu en þeirra eigin komi til greina? Hrokinn sem birtist í þessari afstöðu listakvennanna er yfirgengilegur. Er til of mikils mælst að þær biðjist afsökunar á verki sínu?

Höfundur er framhaldsskólakennari.


Tengdar fréttir

Feil­skot við Nýló

Árið 1938 mótaði afi minn Ásmundur Sveinsson myndhöggvari mynd sem hann kallaði Fyrsta hvíta móðirin. Verk þetta sýnir Guðríði Þorbjarnardóttur en talið er að hún hafi verið fyrsta evrópska konan sem ól barn í Ameríku og var það um árið 1000.




Skoðun

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×