Skoðun

Nemendagarðar

Guðbjörg Grímsdóttir og Birgitta Ósk Hlöðversdóttir skrifa

Árborg er framtíð námsmanna. Hér eigum við að geta skapað nærandi og hvetjandi umhverfi fyrir námsmenn á öllum skólastigum en hér verður horft til framhaldsskóla og háskóla.

Skólasamfélag einkennist meðal annars af metnaði fyrir því að vera í takt við tímann, hafa fagmennsku að leiðarljósi og vera í tengslum við atvinnulífið. Þetta eru stórar áskoranir en ekki síður spennandi og krefjandi. Hér í Árborg hefur margt verið gert síðustu árin í skólamálum til að efla þessa þætti og áfram göngum við. Hlúð hefur verið að iðnnámi og því gert hærra undir höfði sem vel er fagnað. Nemendur geta nú stundað nám hér í Árborg í iðngreinum, íþróttaakademíum ásamt bóklegum greinum og er það vel.

Hér eru kjöraðstæður til að byggja nemendagarða sem gætu þjónað fjölbreyttu hlutverki fyrir nemendur á framhalds- og háskólastigi. Fyrir nemendur á framhaldsskólastigi myndu nemendagarðar vera heimavist meðan á framhaldsnámi stendur. Upptökusvæði Fjölbrautaskóla Suðurlands er stórt og nauðsynlegt að skapa aðstæður fyrir nemendur sem koma annars staðar að þann möguleika að geta verið í framhaldsskóla hér í Árborg. Einnig er mikilvægt að þegar námi í framhaldsskóla lýkur hafi nemendur tækifæri til að nýta nemendagarðana áfram í því námi sem tekur þá við.

Í stað þess að þurfa að flytja í dýrara húsnæði á höfuðborgarsvæðinu gætu nemendur nýtt nemendagarðana áfram og stundað nám á höfuðborgarsvæðinu og þá einnig almenningssamgöngur ef vilji er fyrir því. Þannig eflum við og styðjum við bakið á nemendum til áframhaldandi náms og sköpum menningarverðmæti hér í Árborg. Þetta yrði lyftistöng fyrir bæjarfélagið og afar hvetjandi fyrir námsmenn víðar á landinu að horfa til þessa úrræðis. Nemendagarðar myndu þannig skapa jákvæða umræðu og sýna í verki þann hug sem Árborg hefur til menntunar.

Með þessu móti getur sveitarfélagið komið til móts við nemendur og verið hvatning til að stunda nám því fjárfesting í menntun skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Við í VG viljum leggja okkar af mörkum til að efla unga fólkið okkar og um leið framtíðina. Nemendagarðar eru ein leið til þess.

Guðbjörg skipar 2. sæti hjá VG í Árborg og Birgitta Ósk 15. sætið.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×