Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík-ÍR 103-74 | Breiðhyltingar sóttu ekki gull í greipar Njarðvíkinga Jakob Snævar Ólafsson skrifar 5. janúar 2023 23:44 Njarðvík KR. Subwaydeild karla vetur 2022 körfubolti KKÍ Vísir/Hulda Margrét Njarðvíkingar unnu öruggan 29 stiga sigur er liðið tók á móti ÍR í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, lokatölur 103-74. Lið ÍR sótti lið Njarðvíkur heim í Ljónagryfjunni í Njarðvík í tólftu umferð Subway deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld. Leikurinn var nokkuð jafn í fyrsta leikhluta. ÍR náði forystu í blábyrjun en Njarðvíkingar tóku fljótlega völdin en ÍR liðið hélt vel í við heimamenn. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-20 fyrir Njarðvík. Dedrick Basile fór fyrir Njarðvíkingum og skoraði ellefu stig í leikhlutanum, rétt rúman helming stiga þeirra. Taylor Johns sem hefur farið fyrir liði ÍR það sem af er þessu tímabili hafði nokkuð hægt um sig og skoraði aðeins eitt stig. Með fínni liðsframmistöðu þar sem enginn einn leikmaður skaraði fram úr náði ÍR að halda leihlutanum nokkuð jöfnum. Í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar að koma fleiri leikmönnum betur inn í leikinn og stigaskorið fór að dreifast meira. Það dugði ÍR ekki að Taylor Johns kæmist betur inn í leikinn hjá ÍR og skoraði fjórtán stig í leikhlutanum. Njarðvík jók muninn í tíu stig og hélst hann á þeim nótum fram að hálfleik en þá var staðan 54-45 Njarðvíkingum í vil. Njarðvíkingar fóru hægt af stað í seinni hálfleik og ÍR náði að minnka muninn niður í þrjú stig. Heimamenn náðu að taka sig saman í andlitinu eftir miðjan þriðja leikhluta. Minna bar á Dedrick Basile sem skoraði helmingi færri stig í seinni hálfleik. Lisandro Rasio var sérstaklega öflugur undir körfunni. Taylor Johns barðist af eins miklum krafti og hann gat fyrir ÍR en hann gat ekki dregið vagninn einn og Njarðvíkingar náðu að halda honum betur niðri. Eftir miðjan þriðja leikhluta hrundi sóknarleikur ÍR og skotnýting þeirra fór niður á við. Munurinn var þá sjö stig Njarðvík í vil en fyrir loka leikhlutann var staðan orðin 80-64. Í fjórða leikhluta kastaði ÍR endanlega inn handklæðinu. Leikurinn lullaði áfram og sigur Njarðvíkinga var á endanum auðveldur, 103-74. Heimamenn halda sig þar með nærri efstu liðum deildarinnar en ÍR tapaði fjórða leiknum í röð og situr sem fastast í tíunda sæti. Af hverju vann Njarðvík? Með góðum sóknarleik þar sem boltinn gekk það vel á milli manna að þjálfari ÍR hrósaði því sérstaklega eftir leikinn. Eftir að Dedrick Basile hætti að vera algjörlega leiðandi í leik Njarðvíkinga og aðrir leikmenn öxluðu auknar byrðar keyrðu Njarðvíkingar að lokum yfir ÍR. Til marks um hversu góð heildarframmistaða Njarðvíkinga var má nefna að varamenn liðsins skoruðu samtals fjörtíu og fjögur stig. Varnarleikur heimamanna var mjög góður lengst af en eftir miðja þriðjan leikhluta náðu þeir í auknum mæli að þvinga gestina til að taka verri skot og því fór sem fór. Hverjir stóðu upp úr? Dedrick Basile skoraði tuttugu stig í fyrri hálfleik fyrir Njarðvík en tíu í þeim seinni endaði því með þrjátíu stig og var stigahæstur. Lisandro Rasio var sérstaklega öflugur undir körfunni og átti sinn besta leik fyrir Njarðvík í vetur skoraði tuttugu og fjögur stig (vel yfir meðalstigaskori hans á þessari leiktíð) og tók tólf fráköst. Ólafur Helgi Jónsson fylgdi næst á eftir þeim í stigaskori og skoraði fjórtán en var með tæp tvö að meðaltali fyrir þennan leik. Hvað gekk illa? Sóknarleikur ÍR í seinni hálfleik. Skotnýting þeirra var um fimmtíu prósent utan af velli í fyrri hálfleik en tæpur þriðjungur í þeim seinni. Það gekk líka illa á endanum að koma fleiri leikmönnum en Taylor Johns inn í leikinn. Í fyrsta leikhluta spilaði hann illa en með fínni liðsframmistöðu hélt ÍR sér inn í leiknum þrátt fyrir það. Það sem eftir lifði leiks bar hann liðið nánast á herðum sér og var langt fyrir ofan samherja sína í framlagspunktum. Ein lausn gegn yfirstandandi taphrinu ÍR hlýtur að vera að létta byrðunum af honum. Hvað gerist næst? Bæði lið eru úr leik í VÍS bikarnum og fá því tveggja vikna frí frá leikjum á meðan sú keppni verður útkljáð. Subway deildin heldur áfram 19. janúar næstkomandi. Þá spilar Njarðvík þriðja heimaleikinn í röð þegar Höttur frá Egilsstöðum kemur í heimsókn í Ljónagryfjuna. Þennan sama dag á ÍR einnig heimaleik en þá mun lið Tindastóls halda suður yfir heiðar og sækja Breiðholtið heim. Benedikt: Það líður öllum vel og við erum að fá framlag frá mörgum Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.Vísir / Diego Einu sinni í leiknum var Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkinga það ósáttur við leik sinna manna að hann tók leikhlé og bölvaði hressilega. Eftir leik var hann hins vegar að vonum mjög ánægður með frammistöðu liðsins. „Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna í heild. Þeir minnka þetta í þrjú í seinni hálfleik en eftir það fannst mér við taka völdin. Við vorum að gera þetta skynsamara. Við vorum að gera alls konar feila í upphafi síðari hálfleiks. Við náðum að loka á skytturnar og leyfa til dæmis Taylor að spila einn á einn. Þá fannst mér þetta koma.“ Benedikt tók undir að Njarðvíkingar hefðu náð að bæta leik sinn frá því í upphafi tímabilsins. Eftir fyrstu sex leikina í deildinni hafði Njarðvík tapað þrisvar en í síðustu sex leikjum hefur aðeins einn ósigur litið dagsins ljós (fyrir utan tap í VÍS bikarnum). „Við erum alltaf að verða betri í því sem við viljum gera. Eins og núna við fáum fjörtíu og fjögur stig af bekknum sem er bara frábært. Það líður öllum vel og við erum að fá framlag frá mörgum. Það er það sem maður vill sjá. Það er þó ennþá bara byrjun janúar og það er nóg eftir. Það getur margt gerst. Miðað við stöðuna í dag er ég mjög ánægður með stöðuna á mínu liði.“ Benedikt vill þó alltaf stefna að því að bæta leik liðsins enn meira. „Að sjálfsögðu. Annars myndum við bara mæta í leikina og þyrftum ekki að æfa. Við höldum áfram að æfa grimmt. Það er alltaf hægt að bæta leik liðsins. Vonandi höldum við því áfram. Út á það gengur þetta að vera á uppleið allt tímabilið. Mér finnst við vera á uppleið núna og við verðum bara að halda því áfram.“ Eins og ÍR þarf Njarðvík að bíða í tvær vikur eftir næsta leik. Á undan þessum sigri vann Njarðvík sterkan sigur gegn Keflavík og Benedikt sagði svona langt hlé alveg geta dregið taktinn úr liði sem væri á þeim stað sem Njarðvíkingar eru á. Hins vegar er nokkuð um meiðsli í herbúðum þeirra. Haukur Helgi Pálsson, Oddur Rúnar Kristjánsson og Nicolas Richotti eru allir meiddir. Benedikt sagði gott að fá þetta frí í því ljósi. „Þetta hefur sína kosti og galla. Við erum núna viðbúnir hléi og höldum áfram að vinna í okkar leik.“ Subway-deild karla UMF Njarðvík ÍR
Njarðvíkingar unnu öruggan 29 stiga sigur er liðið tók á móti ÍR í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, lokatölur 103-74. Lið ÍR sótti lið Njarðvíkur heim í Ljónagryfjunni í Njarðvík í tólftu umferð Subway deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld. Leikurinn var nokkuð jafn í fyrsta leikhluta. ÍR náði forystu í blábyrjun en Njarðvíkingar tóku fljótlega völdin en ÍR liðið hélt vel í við heimamenn. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-20 fyrir Njarðvík. Dedrick Basile fór fyrir Njarðvíkingum og skoraði ellefu stig í leikhlutanum, rétt rúman helming stiga þeirra. Taylor Johns sem hefur farið fyrir liði ÍR það sem af er þessu tímabili hafði nokkuð hægt um sig og skoraði aðeins eitt stig. Með fínni liðsframmistöðu þar sem enginn einn leikmaður skaraði fram úr náði ÍR að halda leihlutanum nokkuð jöfnum. Í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar að koma fleiri leikmönnum betur inn í leikinn og stigaskorið fór að dreifast meira. Það dugði ÍR ekki að Taylor Johns kæmist betur inn í leikinn hjá ÍR og skoraði fjórtán stig í leikhlutanum. Njarðvík jók muninn í tíu stig og hélst hann á þeim nótum fram að hálfleik en þá var staðan 54-45 Njarðvíkingum í vil. Njarðvíkingar fóru hægt af stað í seinni hálfleik og ÍR náði að minnka muninn niður í þrjú stig. Heimamenn náðu að taka sig saman í andlitinu eftir miðjan þriðja leikhluta. Minna bar á Dedrick Basile sem skoraði helmingi færri stig í seinni hálfleik. Lisandro Rasio var sérstaklega öflugur undir körfunni. Taylor Johns barðist af eins miklum krafti og hann gat fyrir ÍR en hann gat ekki dregið vagninn einn og Njarðvíkingar náðu að halda honum betur niðri. Eftir miðjan þriðja leikhluta hrundi sóknarleikur ÍR og skotnýting þeirra fór niður á við. Munurinn var þá sjö stig Njarðvík í vil en fyrir loka leikhlutann var staðan orðin 80-64. Í fjórða leikhluta kastaði ÍR endanlega inn handklæðinu. Leikurinn lullaði áfram og sigur Njarðvíkinga var á endanum auðveldur, 103-74. Heimamenn halda sig þar með nærri efstu liðum deildarinnar en ÍR tapaði fjórða leiknum í röð og situr sem fastast í tíunda sæti. Af hverju vann Njarðvík? Með góðum sóknarleik þar sem boltinn gekk það vel á milli manna að þjálfari ÍR hrósaði því sérstaklega eftir leikinn. Eftir að Dedrick Basile hætti að vera algjörlega leiðandi í leik Njarðvíkinga og aðrir leikmenn öxluðu auknar byrðar keyrðu Njarðvíkingar að lokum yfir ÍR. Til marks um hversu góð heildarframmistaða Njarðvíkinga var má nefna að varamenn liðsins skoruðu samtals fjörtíu og fjögur stig. Varnarleikur heimamanna var mjög góður lengst af en eftir miðja þriðjan leikhluta náðu þeir í auknum mæli að þvinga gestina til að taka verri skot og því fór sem fór. Hverjir stóðu upp úr? Dedrick Basile skoraði tuttugu stig í fyrri hálfleik fyrir Njarðvík en tíu í þeim seinni endaði því með þrjátíu stig og var stigahæstur. Lisandro Rasio var sérstaklega öflugur undir körfunni og átti sinn besta leik fyrir Njarðvík í vetur skoraði tuttugu og fjögur stig (vel yfir meðalstigaskori hans á þessari leiktíð) og tók tólf fráköst. Ólafur Helgi Jónsson fylgdi næst á eftir þeim í stigaskori og skoraði fjórtán en var með tæp tvö að meðaltali fyrir þennan leik. Hvað gekk illa? Sóknarleikur ÍR í seinni hálfleik. Skotnýting þeirra var um fimmtíu prósent utan af velli í fyrri hálfleik en tæpur þriðjungur í þeim seinni. Það gekk líka illa á endanum að koma fleiri leikmönnum en Taylor Johns inn í leikinn. Í fyrsta leikhluta spilaði hann illa en með fínni liðsframmistöðu hélt ÍR sér inn í leiknum þrátt fyrir það. Það sem eftir lifði leiks bar hann liðið nánast á herðum sér og var langt fyrir ofan samherja sína í framlagspunktum. Ein lausn gegn yfirstandandi taphrinu ÍR hlýtur að vera að létta byrðunum af honum. Hvað gerist næst? Bæði lið eru úr leik í VÍS bikarnum og fá því tveggja vikna frí frá leikjum á meðan sú keppni verður útkljáð. Subway deildin heldur áfram 19. janúar næstkomandi. Þá spilar Njarðvík þriðja heimaleikinn í röð þegar Höttur frá Egilsstöðum kemur í heimsókn í Ljónagryfjuna. Þennan sama dag á ÍR einnig heimaleik en þá mun lið Tindastóls halda suður yfir heiðar og sækja Breiðholtið heim. Benedikt: Það líður öllum vel og við erum að fá framlag frá mörgum Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.Vísir / Diego Einu sinni í leiknum var Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkinga það ósáttur við leik sinna manna að hann tók leikhlé og bölvaði hressilega. Eftir leik var hann hins vegar að vonum mjög ánægður með frammistöðu liðsins. „Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna í heild. Þeir minnka þetta í þrjú í seinni hálfleik en eftir það fannst mér við taka völdin. Við vorum að gera þetta skynsamara. Við vorum að gera alls konar feila í upphafi síðari hálfleiks. Við náðum að loka á skytturnar og leyfa til dæmis Taylor að spila einn á einn. Þá fannst mér þetta koma.“ Benedikt tók undir að Njarðvíkingar hefðu náð að bæta leik sinn frá því í upphafi tímabilsins. Eftir fyrstu sex leikina í deildinni hafði Njarðvík tapað þrisvar en í síðustu sex leikjum hefur aðeins einn ósigur litið dagsins ljós (fyrir utan tap í VÍS bikarnum). „Við erum alltaf að verða betri í því sem við viljum gera. Eins og núna við fáum fjörtíu og fjögur stig af bekknum sem er bara frábært. Það líður öllum vel og við erum að fá framlag frá mörgum. Það er það sem maður vill sjá. Það er þó ennþá bara byrjun janúar og það er nóg eftir. Það getur margt gerst. Miðað við stöðuna í dag er ég mjög ánægður með stöðuna á mínu liði.“ Benedikt vill þó alltaf stefna að því að bæta leik liðsins enn meira. „Að sjálfsögðu. Annars myndum við bara mæta í leikina og þyrftum ekki að æfa. Við höldum áfram að æfa grimmt. Það er alltaf hægt að bæta leik liðsins. Vonandi höldum við því áfram. Út á það gengur þetta að vera á uppleið allt tímabilið. Mér finnst við vera á uppleið núna og við verðum bara að halda því áfram.“ Eins og ÍR þarf Njarðvík að bíða í tvær vikur eftir næsta leik. Á undan þessum sigri vann Njarðvík sterkan sigur gegn Keflavík og Benedikt sagði svona langt hlé alveg geta dregið taktinn úr liði sem væri á þeim stað sem Njarðvíkingar eru á. Hins vegar er nokkuð um meiðsli í herbúðum þeirra. Haukur Helgi Pálsson, Oddur Rúnar Kristjánsson og Nicolas Richotti eru allir meiddir. Benedikt sagði gott að fá þetta frí í því ljósi. „Þetta hefur sína kosti og galla. Við erum núna viðbúnir hléi og höldum áfram að vinna í okkar leik.“
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik Handbolti
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik Handbolti