Skoðun

Hvaða hags­munir ráða för?

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson skrifa

Nú þegar nýjar upplýsingar birtast bæði íbúum og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins Ölfuss á síðum Morgunblaðsins um frekari og mjög stórtækar fyrirætlanir Heidelberg Materials í Þorlákshöfn, er rétt að fara aðeins yfir stöðuna.

Á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar 7. desember síðastliðinn lá fyrir erindi frá Skipulagsstofnun þar sem beðið var um umsögn um matstilkynningu vegna mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Í beiðninni segir meðal annars að í umsögninni skuli koma fram hvort sveitarfélagið kalli á að framkvæmdin fari í umhverfismat. Sem sagt, þarna gafst Sveitarfélaginu Ölfusi tækifæri á að segja sína skoðun á því hvort það teldi fyrirhugaða verksmiðju Heidelberg í Þorlákshöfn þurfa að fara í umhverfismat.

Fyrir fundinum lá tillaga að umsögn þar sem listaðar eru upp þau skilyrði sem Ölfus setur fyrirtækinu og bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 24. nóvember. Auk þess bætti nefndin við lið sem ítrekaði samráð við sveitarfélagið þegar kæmi að hönnun byggingarinnar.

Fulltrúar B lista Framfarasinna sem sitja í Skipulags- og umhverfisnefnd fyrir hönd minnihlutans lögðu fram eftirfarandi álit: „Talið er mikilvægt að mölunarverksmiðjan fari í umhverfismat, sökum umfangs hennar miðað við samfélagið í Þorlákshöfn.”

Þegar fundargerð þess fundar var lögð fram á bæjarstjórnarfundi 15. desember til samþykktar, rataði álit bæjarfulltrúa Framfarasinna ekki inn í umsögnina sem Sveitarfélagið Ölfus sendi til Skipulagsstofnunar. Sem sagt, sveitarfélagið Ölfus kallaði ekki eftir því að framkvæmdin færi í umhverfismat.

Hvers vegna beitir meirihlutinn sér ekki fyrir því að leiða fram allar upplýsingar?

Þessi afstaða meirihlutans vekur mikla furðu okkar bæjarfulltrúa í minnihluta. Í fyrrnefndum skilyrðum sem bæjarstjórn samþykkti segir meðal annars að bæjarstjórn „áskilji sér fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins“, og að „ekki komi til greina að gefinn verði afsláttur af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama“.

Hvers vegna í ósköpunum fer bæjarstjórn þá ekki fram á að verksmiðjan fari í umhverfismat og þar með í gaumgæfilega skoðun sem tekur á málum er varða hagsmuni íbúa og umhverfis? Hvaða hagsmuni er verið að vernda með þeirri afstöðu? Hvernig geta íbúar tekið vel ígrundaða ákvörðun þegar kemur að íbúakosningu, sem búið er að lofa en enginn veit hvenær verður, þegar sveitarfélagið beitir sér ekki fyrir því að leiða fram allar mögulegar upplýsingar um áhrif sem framkvæmdin kann að hafa?

Sérálit til Skipulagsstofnunar frá fulltrúum B og H lista

Fulltrúar H og B lista sendu Skipulagsstofnun sérálit sem hljóðar svo:

„Við viljum árétta það að fulltrúar B og H lista telja fulla þörf á því að fyrirhugaðar framkvæmdir við verksmiðju Heidelberg fari í umhverfismat, sem hlýtur að teljast sjálfsögð krafa frá bæjarstjórn sem er búin að samþykkja það að: ,,áskilja sér fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins" og að: ,,ekki komi til greina að gefinn verði afsláttur af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama.“

Í 19. gr.laga nr. 111/2021 um Framkvæmdir sem kunna að vera háðar umhverfismati segir:

„Tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lög þessi skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka“.

Sveitarfélagið Ölfus á að sjálfsögðu að gera skýra kröfu um það til Skipulagsstofnunar að heildarframkvæmdin hér í Þorlákshöfn fari í umhverfismat og standa þannig með hagsmunum samfélagsins.

Við teljum fulla þörf á því að fyrirhuguð verksmiðja fari í umhverfismat. Það er ekki hægt að horfa á fyrsta áfanga verkefnisins þegar ákvörðun um mat verður tekin, heldur lokapunktinn sem er verksmiðja á 65.000 m2 lóð í mikilli nálægð við íbúabyggð og 40-60 m háum sílóum, allt að 8 talsins. Ekki er með sannfærandi hætti búið að sýna fram á það að mengun muni ekki koma frá verksmiðjunni. Það þarf að okkar mati að meta betur ýmis form mengunar: sjón-, hljóð-, lyktar- og umhverfismengun og greina með fullnægjandi hætti hvort efni sem eru skaðleg heilsu fólks muni leggja frá verksmiðjunni, svo sem svifryk og gufur úr vinnslu. Vanda þarf sérstaklega til þessarar vinnu í ljósi mikillar nálægðar við íbúahverfi”.

Hagsmunir íbúa og umhverfis verða að ráða för

Þegar þetta er skrifað hefur Skipulagsstofnun ekki tilkynnt um ákvörðun sína um það hvort fyrirhuguð mölunarverksmiðja Heidelberg þurfi að fara í umhverfismat, en sú ákvörðun hlýtur að liggja fyrir fljótlega. Við bindum miklar vonir við að stofnunin standi með hagsmunum íbúa og umhverfis og fari fram á umhverfismat. Þar fyrir utan er alveg ljóst að það þarf að meta verkefnið út frá samfélaginu í stærra samhengi, búsetugæðum og áhrifum á önnur fyrirtæki sem hér eru fyrir eins og á matvæla- og visttengda starfsemi og mögulega uppbyggingu í ferðaþjónstu. Í upphafi skyldi endirinn skoða.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, H-lista, Hrönn Guðmundsdóttir, B-lista, og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson, B-lista í Ölfusi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×