Skoðun

Ó­rétt­mæt þvingunar­að­gerð gegn lág­tekju­fólki

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur verður miðlunartillaga ríkissáttasemjara ekki felld nema 25 prósent félagsmanna í stéttarfélagi greiði atkvæði gegn henni.

Í tilviki Eflingar þýðir þetta að jafnvel þótt kjörsókn yrði miklu meiri en hún var hjá öðrum aðildarfélögum SGS í desember, og jafnvel þótt 5.000 félagsmenn tækju þátt í atkvæðagreiðslunni og allir greiddu atkvæði gegn miðlunartillögunni – þá teldist hún samt samþykkt.

Allir hljóta að sjá hvílík skrumskæling á lýðræði slík atkvæðagreiðsla er, sérstaklega fyrir stéttarfélag eins og Eflingu þar sem félagsmenn eru dreifðir á óteljandi vinnustaði, margir erlendis frá og ómeðvitaðir um réttindi sín.

Þetta er þvingunaraðgerð og nú er henni beitt gegn tekjulægsta fólkinu á höfuðborgarsvæðinu skömmu eftir að samningar losnuðu, án þess að samningaviðræður hafi verið fullreyndar og rétt áður en niðurstaða kosningar um verkfallsaðgerðir liggur fyrir.

Þannig er í raun verkfallsvopnið slegið úr höndum stéttarfélags með valdboði, og niðurstaðan ekki ósvipuð því þegar lög eru sett á verkfall. Þá eru það hins vegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi sem taka ákvörðunina og hægt að refsa þeim fyrir það í kosningum. Nú er það embættismaður, án lýðræðislegs umboðs, sem beitir slíku valdi, en það gerir hann í skjóli félagsmálaráðherra Vinstri grænna sem fer með vinnumarkaðsmál í ríkisstjórn Íslands.

Framganga ríkissáttasemjara er ekki bara atlaga að frjálsum samningsrétti Eflingar og sjálfsákvörðunarrétti félagsmanna, heldur hættulegt fordæmi gagnvart verkalýðshreyfingunni í heild og til þess fallið að skaða traust og raska eðlilegum samskiptum á vinnumarkaði.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands.


Tengdar fréttir

At­kvæða­greiðslan skrum­skæling á lýð­ræði

Forysta Eflingar mun í dag heimsækja félagsmenn sína, sem munu leggja niður störf verði verkfallsaðgerðir samþykktar, og hvetja þá til að hafna miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þingmaður Samfylkingarinnar segir tíma til kominn að Alþingi endurskoði reglur um miðlunartillgöru ríkissáttasemjara.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×