Skoðun

Fals on í fals á fals ofan?

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Undanfarnar vikur hefur opinberast smátt og smátt með hvaða hætti stöðugleikaeignir sem ríkissjóður eignaðist við uppgjör föllnu bankanna voru og hafa verið meðhöndlaðar í meðförum fjármálaráðuneytisins, Lindarhvols ehf, framkvæmdaaðilum sölu eignanna og þeirra sem sjá áttu um eftirlit með framkvæmd sölu eignanna. Um þó nokkuð marga aðila er að ræða.

Sú mynd sem er að teiknast upp af meðferð og söluferli eignanna er ekki falleg að sjá. Leyndarhyggja; lögbrot; sektargreiðslur; pólitísk tengsl; óútskýrðir afslættir; vinum, vandamönnum og sjálfum sér hyglað; grautfúin stjórnsýsla og siðferðileg gjaldþrot svo fátt eitt sé upptalið.

Rammi myndarinnar er klár, hann var settur saman í kjölfar bankahrunsins fyrir fimmtán árum síðan með Rannsóknarskýrslu Alþingis. Af fyrstu dráttum myndarinnar af meðhöndlun stöðugleikaeignanna má sjá að það stefnir í mikil líkindi með henni og myndarinnar sem dregin var upp af aðdraganda bankahrunsins. Sama listformið þó einhver blæbrigðamunur muni verða á myndunum tveim þ.e. annarsvegar aðdraganda bankahrunsins og hinsvegar einum af eftirmálum þess, framkvæmd á sölu stöðugleikaeignanna.

Varnartengiliðir söluframkvæmdarinnar segja gagnrýni á störf sín óréttláta. Meint fals þeirra sé á misskilningi byggt og til þess eins fallið að sverta þau miklu afrek sem þeir hafi unnið við söluna. Að mati þeirra er hér um að ræða bestu sölu ríkiseigna í sögu Íslands og jafnvel sú besta í Evrópu. Fáir útvaldir taka undir þá málsvörn þeirra.

Þrátt fyrir málsvörn varnartengiliðanna og fárra útvaldra að þá hefur myndin af framkvæmd á sölu stöðugleikaeignanna, þó ókláruð sé, ratað inn á borð ríkissaksóknara vegna meintra falsana. Ekki þó vegna þess að myndin sjálf sé fölsuð heldur vegna þess að fyrstu drættir myndarinnar gefa til kynna að fals on í fals á fals ofan hafi viðgengist við meðhöndlun og meðferð stöðuleikaeignanna, þeirra rúmu 400 milljarða króna sem þær innihéldu í upphafi.

Höfundur er byggingarverkfræðingur og fyrrv. bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×