Innlent

Ís­lendingur lúbarði lög­reglu­menn í Pól­landi

Árni Sæberg skrifar
Íslendingurinn hafði í fullu tré við lögregluþjónana.
Íslendingurinn hafði í fullu tré við lögregluþjónana. Skjáskot/RMF

Íslenskur karlmaður er sagður hafa lumbrað á lögreglumönnum á lögreglustöð í Varsjá í Póllandi á dögunum. Hann var vistaður í fangaklefa fyrir skemmdarverk í borginni.

Upptöku úr öryggismyndavél í kjallara lögreglustöðvar í Varsjá var lekið í síðustu viku. Á henni sést maður lumbra á tveimur lögreglumönnum. Maðurinn virðist hafa í fullu tré, og vel það, við tvo lögreglumenn heillengi en þeir hafi svo fengið liðsauka og yfirbugað hann.

Myndskeiðið, sem fengið er af vef pólsku útvarpsstöðvarinnar RMF, má sjá í spilaranum hér að neðan:

Í frétt RMF segir að maðurinn sé Íslendingur, sem hafi verið handtekinn vegna skemmdarverka. Hann hafi skemmt lúxusbifreið af gerðinni Bentley, með því að berja húdd hennar með fartölvu og sparka í stuðara hennar. Eigandi hennar er sagður meta tjón sitt á sextíu þúsund pólsk slot. Það gerir tæplega tvær milljónir króna.

Sýni fram á þörf á frekari þjálfun

RMF hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Varsjá að lögreglumennirnir hafi verið fastir í rútínu sinni og því ekki verið undirbúnir fyrir slagsmál við fanga. Upptakan sýni fram á að þjálfun lögregluþjónanna sé ábótavant. Upptakan verði notuð til frekari þjálfunar lögregluþjóna.

Loks segir að Íslendingurinn hafi verið kærður fyrir brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á netfangið [email protected] eða í tölvupósti á einstaka blaðamenn. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×