Skoðun

Nei Lilja, Bjarni á ekki að stýra RÚV!

Sigmar Guðmundsson skrifar

Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, er á afar miklum villigötum þegar hún fullyrðir að utanríkisráðherra þurfi að vera með í ráðum ef RÚV ákveður að taka ekki þátt í Júróvisjón. Ráðherrar eiga að láta fjölmiðlum eftir að taka ákvarðanir um dagskrá og fréttir, líka þær vandasömu. Stjórnmálamenn eiga setja almennar reglur og lög um RÚV og aðra fjölmiðla en einstaka ákvarðanir um það sem birtist á skjánum er í höndum þeirra sem stýra miðlunum. Öðruvísi getur það ekki verið í lýðræðissamfélagi sem skilur hve mikilvægt frelsi fjölmiðla er.

Ég átta mig vel á því að þetta er mjög viðkvæmt mál. Landsmenn og heimurinn allur hefur sterkar skoðanir á þeim yfirgengilega hryllingi sem nú á sér stað á Gaza og hinum viðbjóðslegu hryðjuverkaárásum Hamas. En einmitt vegna þess verður ráðherra að skilja að það er ekki bara mjög stór ákvörðun að taka ekki þátt í Júróvisjón – það er þá líka mjög stór ákvörðun að taka þátt. Og það er ekki ráðherra eða Alþingis að taka það vald af útvarpsstjóra og hans fólki, jafnvel þótt stjórnendur RÚV séu í klemmu vegna þessa.

Þetta er ekki sambærilegt við þátttöku Íslands í íþróttaviðburðum. Ofur einfaldlega vegna þess að RÚV er sjálfstæður fjölmiðill en ekki íþróttafélag eða sérsamband. Þetta vekur strax upp þá spurningu hvort menningarmálaráðherra og fleirum í ríkisstjórninni finnst að Ríkisútvarpið eigi að ráðfæra sig við stjórnvöld um eitthvað annað dagskrárefni – hvort einhverjar aðrar aðstæður geti kallað á afskipti stjórnvalda af miðlinum? Og ekki síður, hefur þess áður verið krafist í tíð þessarar ríkisstjórnar að fjölmiðlar beri ákvarðanir sínar um dagskrárefni undir ráðherra?

Stefán Eiríksson og hans fólk þarf að taka þessa ákvörðun. Og það er alveg ljóst að fólk verður reitt, sama hver ákvörðunin verður. En ég hef lúmskan grun um að reiðin verði meiri ef Lilja og Bjarni skipa ríkisútvarpinu fyrir verkum.

Ef þetta er ráðandi viðhorf meðal ráðamanna þá erum við í vanda. Það er erfitt að réttlæta tilvist ríkisfjölmiðils sem tekur við fyrirmælum frá ráðherra um þátttöku í sjónvarpsþáttum. Fjölmiðli sem er uppálagt að fylgja stefnu stjórnvalda er ekki mikils virði. Spyrjið bara Rússa.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×