Skoðun

Þetta reddast eða hvað?

Marinó G. Njálsson skrifar

Frasinn í yfirskrift greinarinnar er ákaflega mikið notaður, meðvitað og ómeðvitað, í íslensku þjóðfélagi og hafa nokkrar greinar birst með sömu eða svipaðri yfirskrift síðustu vikur og mánuði. Ekki er hlustað á varnaðarorð eða ábendingar, vegna þess að þetta kemur ekki frá réttum aðila, telst vera óþarf kvabb, fyrir hendi er skortur á framsýni og víðsýni eða að einhver annar á að borga.

Þegar kemur að ógnum og áhættum í umhverfinu, þá hefur mikið verið gert undanfarna áratugi.Snjóflóðavarnir eru loksins fyrir hendi á mörgum stöðum og hafa án vafa bjargað mannslífum. Það var hins vegar ekki fyrr en fjölmargir létust í mjög mannskæðum snjóflóðum á Vestfjörðum. Rúmlega tveimur áratugum fyrr höfðu mannskæð snjóflóð fallið á Neskaupstað, en þau urðu ekki til þess að gripið yrði til aðgerða.

Margt hefur breyst frá því þessi snjóflóð féllu, en hve mörg sveitarfélög, þéttbýlisstaðir, mikilvægar stofnanir eða mikilvægir innviðir hafa framkvæmt hjá sér áhættumat til að greina hvað gæti farið úrskeiðis og skilja áfallaþol sitt? Slík vinna fór af stað fyrir nokkrum árum, en miðað við það sem ég hef hlerað, þá vantar mikið upp á að verkinu sé lokið.

Í á annan áratug, hef ég dundað mér við að skoða ógnir og áhættur á Íslandi. Bæði af þráhyggju og einskærum áhuga. Byggt á því mat ég t.d. vissa hættu á, að hraun gæti runnið yfir heitavatnslögn milli Svartsengis og Njarðvíkur kæmi til eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni. Birti ég þá aðvörun í grein haustið 2020, þ.e. tæplega þremur og hálfu ári áður en hraunstraumur tók lögnina í sundur, en haustið 2020 leit jafnvel út fyrir að eldgos myndi hefjast þar. Engum ber svo sem skylda til að lesa mín skrif og því virtist þessi aðvörun hafa farið fyrir ofan garð og neðan. Þekking mín á svæðinu byggir hins vegar á áhættumati sem ég gerði fyrir um 20 árum vegna Schengen-upplýsingakerfisins.

Þetta dundur mitt hefur skilað sér í nokkuð stóru skjali, þar sem ég hef reynt að meta helstu ógnir og áhættuþætti hjá öllum sveitarfélögum landsins. Skipti ég hverju sveitarfélagi upp í þéttbýliskjarna (geta verið margir innan hvers), dreifbýli og þar sem við á óbyggðir, eitthvað um 130 svæði. Hef ég auk þess skilgreint vel yfir 100 ógnir eða áhættuþætti og loks reynt að meta á skalanum 0 til 5 áhrif sem það hefði á hvert svæði fyrir sig, raungerðust þessar ógnir eða áhættuþættir. Ég þekki hvert svæði misjafnlega vel, eða eigum við frekar að segja, misjafnlega illa, en svo vill til að ég hef unnið einfalt áhættumat fyrir nánast alla grunnskóla og leikskóla á landinu í tengslum við persónuvernd og það er með ólíkindum hve mikið af ógnum og áhættuþáttum sem tengdust því, eiga við sveitarfélögin almennt.

En að fyrirsögninni.Það getur vel verið að hlutirnir reddist, en þegar kemur að lífi, limum, velferð og lífsgæðum íbúanna, þá er það ekki nóg. Vegalengd sem íbúar þurfa að ferðast til að komast í lyfjabúð, heilsugæslu eða sjúkrahús skiptir máli. Það getur verið að þetta gangi allt upp yfir sumartímann, en getur verið lífshættulegt yfir vetrartímann. Hvernig bregst sveitarfélag við, ef loka þarf leikskóla eða grunnskóla til lengri tíma?Er húsnæðisskortur að hamla framþróun atvinnulífsins og hefur það verið metið? Hve háð eru sveitarfélögin grunninnviðum? Hver er staða þeirra? Hvert er lengsta þolanlega þjónusturof mikilvægra innviða áður en neyðarástand skapast?

Hafi einhverjir sveitastjórnarmenn áhuga á þessum vangaveltum mínum, þá er ég til í að eiga við þá samtal.

Höfundur er sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggisstjórnun og persónuvernd.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×