Skoðun

Friðarsúlan skín skærar

Skúli Helgason skrifar

Útilistaverkið Friðarsúlan eftir Yoko Ono hefur verið magnað tákn um mikilvægi friðar frá því verkið var opinberað 2007.

Verkið hefur vakið athygli heima og erlendis á undanförnum áratugum en undanfarin misseri hefur geislinn verið að dofna og undirstöðurnar farið að láta á sjá. Það var því ljóst að ráðast þyrfti í endurbætur til að verkið myndi njóta sín til fulls og hafa tilætluð áhrif. Við í forystu menningar-,íþrótta- og tómstundaráðs og sviðs höfum unnið að því undanfarið að ná samkomulagi við þá aðila sem stóðu að uppsetningu verksins á sínum tíma um að ráðast sameiginlega í endurbæturnar og fjármagna þær. Það hefur nú tekist og munu Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og sjóður á vegum Yoko Ono fjármagna verkefnið. Áætlað er að verkefnið muni kosta tæpar 33 milljónir króna. Framkvæmdirnar eru hafnar og gagna samkvæmt áætlun en miðað er við að ljúka þeim áður en Friðarsúlan verður tendruð á afmælisdegi Lennons 9. október. Búnaður var fluttur til landsins og út í Viðey í júlí og uppsetning á vegum ítölsku framleiðendanna sem komu að smíði og uppsetningu súlunnar í upphafi fór fram í ágúst. Búnaðurinn hefur verið prófaður og virkar vel en geisli Friðarsúlunnar verður prófaður og fínstilltur í lok september. Viðgerð á steinlögn er að hefjast og á að ljúka í byrjun október. Það er sérstakt ánægjuefni að orkuþörf verksins minnkar við endurbæturnar, viðhald verður auðveldara sem og stilling verksins fyrir tendrunartímabil hvers árs.

Þörf áminning um friðarboðskap

Eftir endurbæturnar mun Friðarsúlan lýsa bjartari og þéttari en fyrr. Hún mun því gegna enn betur hlutverki sínu sem sterkt kennileiti í borginni og þörf áminning um friðarboðskap í núverandi heimsmynd. Táknrænt mikilvægi Friðarsúlunnar hefur sjaldan verið meira en nú þegar innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur geisað í hálft þriðja ár og saklaus börn og almennir borgarar hafa látið lífið í þúsundatali þar í landi og í Palestínu. Boðskapur Friðarsúlunnar á erindi við alla heimsbyggðina á óróatímum og Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki sem herlaus þjóð í alþjóðasamfélaginu, sem leggi áherslu á friðsamleg samskipti þjóða.

Höfundur er formaður menningar-,íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×