Skoðun

Vernd náttúrunnar er á­kvörðun

Eva Dögg Davíðsdóttir skrifar

Vernd náttúru er ákvörðun. Ákvörðun sem getur verið duttlungum háð sé hún ekki tryggð í lögum. Í gær var dagur íslenskrar náttúru, og því við hæfi að við stöldrum við og spyrjum okkur: Hvernig viljum við að ákvarðanir sem varða náttúruna séu teknar?

Íslensk náttúra er stórbrotin, en hún er líka brothætt. Við vitum að álag á auðlindir landsins eykst með hverju árinu og áform um nýtingu náttúruauðlinda í þágu orkuskipta, á sama tíma og afleiðingar loftslagsbreytinga raungerast, auka álagið. Það er þess vegna nauðsynlegt að við stígum skrefið til fulls og tryggjum að vernd náttúrunnar liggi til grundvallar í allri ákvarðanatöku og stefnumótun.

Við þurfum auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Með auðlindaákvæði gætum við tryggt að auðlindir landsins verði verndaðar og nýttar á sjálfbæran hátt, óháð því hver situr við völd á hverjum tíma. Þegar verndun náttúru er varin með stjórnarskrárákvæði er hún ekki lengur háð skammtímasjónarmiðum – hún verður varanleg, ákvörðun sem raunverulega stendur vörð um náttúruna fyrir komandi kynslóðir.

Vinstri græn hafa alltaf staðið vörð um náttúruna. Við höfum alltaf sett náttúruvernd á dagskrá til að mynda í gegnum friðlýsingar landsvæða og höfum barist fyrir því að viðkvæm svæði séu í verndarflokki orkunýtingar. Við höfum líka tekið skref til þess að skapa sátt um auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands. Slíkt ákvæði myndi festa það í sessi að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar og séu eingöngu nýttar með sjálfbærni í fyrirrúmi.

Við fögnuðum degi íslenskrar náttúru í gær, en ég vona að á hverjum degi getum við verið sammála um það að vernd náttúrunnar er grundvöllur farsællar framtíðar – og að vernd hennar í stjórnarskrá er eina leiðin til þess að hún fái að njóta vafans um ókomna tíð.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×