Skoðun

Bleikur dagur

Ingibjörg Isaksen skrifar

Í dag, 23. október, er Bleikur dagur, sem er hluti af októberátakinu. Á þessum degi fögnum við styrknum og seiglunni sem einkennir baráttuna gegn brjóstakrabbameini. Það er tilefni til að íhuga mikilvægi forvarna, klæðast bleikum litum til stuðnings, og hvetja konur til að mæta í skimun. Október er tími umhyggju þar sem við minnumst samstöðu og sýnum stuðning í baráttunni gegn þessum alvarlega sjúkdómi.

Lægri kostnaður

Krabbamein er eitt helsta heilsufarsvandamál okkar tíma, og sérstaklega brjóstakrabbamein, sem er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni brjóstakrabbameins um allt að 20%. Skimun auðveldar greiningu á sjúkdómnum á fyrri stigum, sem býður upp á betri meðferðarúrræði og auknar lífslíkur.

Til að auka aðgengi að skimun hefur heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson ákveðið að lækka kostnað við brjóstaskimun niður í 500 krónur. Þetta er mikilvægur áfangi í því að tryggja að þátttaka í skimanir verði ekki háð fjárhagslegri stöðu, og sömuleiðis að fleiri konur sjái sér fært að taka þátt.

Sveigjanleiki atvinnurekenda

Stuðningur atvinnurekenda er einnig ómetanlegur í þessari baráttu. Með átakinu „Skrepp í skimun“ er hvatt til þess að konur njóti sveigjanleika á vinnustöðum til að sækja þessa mikilvægu þjónustu. Það þarf skýra stefnu í að mynda svigrúm fyrir konur svo þær geti nýtt sér skimun sem oft gefst aðeins möguleiki á úti á landsbyggðinni í nokkra daga í einu.

Við höfum öll hlutverk að gegna í því að hvetja konur í okkar nærumhverfi – í vinnunni, innan fjölskyldur og í vinahópum – til að nýta sér skimun. Með hvatningu og samstöðu sýnum við ekki bara stuðning okkar, heldur tökum þátt í að tryggja heilsu fyrir framtíðina.

Tökum þátt, sýnum kærleik og vitund – skreppum í skimun.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×