Skoðun

Hvað gerist svo?

Árný Björg Blandon skrifar

Nú get ég ekki orða bundist frekar en svo oft áður.

Undir tímabundinni „starfsstjórn“ Bjarna Ben þar sem brýnt er að klára mikilvæg mál fyrir kosningar, á að skjóta inn beiðni fyrir hvalveiðum!

Er það tilviljun eða með ráðum gert að umsókn um leyfi til hvalveiða sé komin upp á borð starfsstjórnarinnar?

Er það tilviljun eða með ráðum gert að allt í einu er Jón Gunnarsson komin til starfa undir stjórn Bjarna Ben og hefur nú þegið 5. sæti sem kom alls ekki til greina fyrir fáeinum dögum? Hann vildi bara 2. sæti eða ekkert.

Það er ljóst að spilling og eiginhagsmunagæsla er aldrei langt undan hjá þessum stjórnmálaflokki. Jón Gunnarsson, sem mögulega, kannski var á leiðinni í annan flokk er nú allt í einu komin á fullt í að vasast sem aðstoðarmaður í matvælaráðuneyti Bjarna Ben. Hann óskaði eftir umsóknum um hvalveiðar og nú liggur ein á borðinu. Það var undur fljótt að gerast.

Ég spyr, þarf allt í einu að afgreiða hvalveiðimál áður en ný ríkisstjórn er komin til starfa?

Jón Gunnars lætur Bjarna Ben kaupa sig aftur til baka í flokkinn. Kristján hvalveiðikóngur sér stórkostlegt tækifæri á borðinu.

Hvað gerist svo?

Sjáum við ekki í gegnum þetta? Er þetta það sem við viljum kjósa yfir okkur? Höfum við ekki fengið nóg?

Ég vona að þetta útspil verði þeim ekki til framfara í næstu kosningum.

Höfundur vinnur við þýðingar og yfirlestur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×