Skoðun

Van­virðing við einka­fram­takið og verðmæta­sköpun

Bessí Þóra Jónsdóttir skrifar

Við þekkjum flest öll harðduglegt vinnandi fólk í iðngreinum: Gumma pípara, Sigga smið eða Önnu hársnyrti. Þau hafa tekið mikla áhættu og ákveðið að fara í eigin rekstur þar sem mánaðarlegur launatékki er ekki tryggður. Ef Samfylkingin kemst til valda ætla frambjóðendur hennar að hækka skatta á þessa aðila. Það er gert undir því yfirskyni að loka svokölluðu „ehf gati“, sem er reyndar byggt á misskilningi, en Samfylkingin hefur sett fram sem eitt af sínum helstu stefnumálum. Víðir Reynisson oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi lét hafa eftir sér að rakarar, píparar og smiðir í eigin rekstri hefðu breiðari bök heldur en almennir launþegar og gætu því tekið skattahækkanir á sig. Í málflutningi hans má skynja ákveðinn hroka og vanvirðingu í garð fólks í eigin rekstri. Þessir aðilar búa ekki við sama starfsöryggi og almennir launamenn og verða þar að auki yfirleitt fyrir tekjumissi við veikindi og orlof.

Húsnæðismál hafa verið í brennidepli síðustu misseri. Það liggur fyrir að við þurfum að byggja mikið á næstu árum, bæði húsnæði og innviði. Því er gífurleg eftirspurn eftir mikilvægu vinnuframlagi frá pípurum, smiðum, rafvikjum og öðrum framtakssömum aðilum. Á sama tíma búum við nú þegar við skort á iðnmenntuðu fólki. Þessi tillaga Samfylkingar um að hækka skatta á sjálfstæða atvinnurekendur mun gera iðnmenntun minna spennandi og líklega draga úr aðsókn í slíkt námá þeim tíma sem við þurfum mest á iðnmenntuðu fólki að halda. Skattahækkanir Samfylkingarinnar munu leiða til þess að smiðir, píparar og annað harðduglegt fólk í eigin rekstri þurfi að hækka verð til að mæta þessum skattahækkunum. Þetta mun ekki bara hækka byggingakostnað með tilheyrandi áhrifum á íbúðaverð heldur mun einnig gera næstu klippingu eða næstu heimsókn píparans dýrari fyrir fólkið í landinu.

Þetta útspil Samfylkingarinnar kemur að vísu ekkert á óvart þar sem nær enginn af efstu 5 frambjóðendum þeirra í öllum kjördæmum starfar í einkageiranum. Þeim finnst sjálfsagt að vinnandi fólk á einkamarkaði, sem drífur áfram verðmætasköpun í samfélaginu, greiði meira og meira og meira. Á sama tíma stytta þau vinnutíma sinn, sleppa því að mæta á föstudögum aðra hverju viku og safna upp orlofi eins og við þekkjum frá Reykjavíkurborg. Þau sóa fjármunum sem framtakssamir aðilar hafa skapað í ótal gæluverkefni, nefndir og skýrslur sem enda í skúffum og endalausar skemmtiferðir til útlanda á ráðstefnur og námskeið.

Samfylkingin, nei takk!

Miðflokkurinn ætlar ekki að hækka skatta á þetta öfluga fólk sem skapar verðmætin í landinu. Við ætlum að lækka skatta, skera niður í ríkisrekstri, byggja meira og lækka byggingakostnað.

Höfundur er atferlishagfræðingur og frambjóðandi í 3. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×