Sport

Suður-Afríkummenn vilja halda Ólympíu­leikana eftir tólf ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bayanda Walaza, Shaun Maswanganyi, Bradley Nkoana og Akani Simbine fagna saman silfurverðlaunum suður-afríska boðshlaupslandsliðsins á ÓL í París.
Bayanda Walaza, Shaun Maswanganyi, Bradley Nkoana og Akani Simbine fagna saman silfurverðlaunum suður-afríska boðshlaupslandsliðsins á ÓL í París. Getty/Mustafa Yalcin

Ólympíuleikarnir hafa aldrei farið fram í Afríku en það gæti breyst verði draumur Suður-Afríkumanna að veruleika.

Suður-Afríka varð fyrsta Afríkuþjóðin til að halda heimsmeistaramótið í fótbolta árið 2010 og nú vilja Suður-Afríkumenn halda Sumarólympíuleikana fyrstir Afríkuþjóða árið 2036.

Næstu Ólympíuleikar fara fram í Los Angeles 2028 og í Brisbane í Ástralíu 2032.

Alþjóða Ólympíunefndin staðfesti í vikunni að viðræður hafi farið fram milli fulltrúa hennar og fulltrúa íþróttayfirvalda í Suður-Afríku.

Þar fengu Suður-Afríkumenn að vita hvað þarf til svo þeir geti sótt um en samkeppnin verður örugglega hörð og miklu þarf að kosta til með slíku framboði.

Alþjóða Ólympíunefndin sagði líka í tilkynningu sinni að það séu meira en tíu þjóðir áhugasamar um að fá að halda sumarólympíuleikana eftir tólf ár.

Það hefur verið fjallað um möguleg framboð frá Indónesíu, Istanbul í Tyrklandi, Santiago í Síle en einnig er orðrómur um að Egyptar, Suður-Kóreumenn, Kanadamenn, Katarar, Sádi-Arabar, Ungverjar, Ítalir og jafnvel Danir vilji halda leikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×