Enski boltinn

„Föstu leikatriðin drápu leikinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúben Amorim var líflegur á hliðarlínuni gegn Arsenal.
Rúben Amorim var líflegur á hliðarlínuni gegn Arsenal. getty/Catherine Ivill

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði föstu leikatriðin hefðu orðið hans mönnum að falli gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Arsenal vann leikinn, 2-0, en bæði mörkin komu eftir hornspyrnur.

Þetta var fyrsta tap United undir stjórn Amorims og Portúgalinn var alveg viss hvað hefði farið úrskeiðis í kvöld.

„Föstu leikatriðin breyttu leiknum. Við hefðum getað verið ákveðnari að vítateig Arsenal. Fram að föstu leikatriðunum litu ekki mörg tækifæri dagsins ljós. En þau drápu leikinn,“ sagði Amroim í leikslok.

Arsenal ógnaði hvað eftir annað eftir hornspyrnur og skoruðu eftir tvær slíkar eins og áður sagði.

„Þeir geta sett marga leikmenn nálægt markverðinum og það er nánast ómögulegt að berjast um boltann. En við verðum að verjast þessu og vera betri,“ sagði Amorim sem var svekktur með færið þar sem David Raya varði frá Matthjis de Ligt í stöðunni 1-0.

„Við vorum staðfastir en töpuðum vegna föstu leikatriðanna. Ef Matthjis hefði skorað á þessum tíma hefði leikurinn breyst. Við reyndum að spila en þeir eru mjög skipulagðir og það er erfitt að skora. Mér fannst leikmennirnir vera með stjórn á leiknum en föstu leikatriðin breyttu leiknum í seinni hálfleik.“

United er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með nítján stig. Næsti leikur liðsins er gegn Nottingham Forest á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×