Skoðun

Fallega dóttir mín

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ég er stoltur pabbi. Dóttir mín er fjögurra ára gömul og hefur glatt mig mjög mikið síðan hún kom í heiminn. Hún er hnyttin í tilsvörum og orðheppin. Mig langar að deila með ykkur samræðum sem við áttum ekki alls fyrir löngu.

Við vorum tvö í bílnum á laugardagseftirmiðdegi á leiðinni úr Smáralind. Þorsti og löngun í sykur sótti að henni: „Pabbi má ég fá kók?“ Hún hefur ekki fengið mikið gos hingað til, nema rétt á tyllidögum, svo ég svaraði henni um hæl: „Nei ástin mín, það er ekki í boði núna.“ Ég bjóst við því að þurfa að rökstyðja svar mitt betur, en sú stutta var jákvæðari í svörun en mann hefði grunað: „Allt í lagi,“ sagði hún hugsandi.

Við sátum í þögn í nokkra stund en ég fann á mér að hún væri í miklum pælingum. Niðurstaða þankagangsins var svo nokkuð hnitmiðuð spurning: „Pabbi er ekki laugardagur í dag?“ Þessu var auðsvarað, vissulega var laugardagur. Hún var fljót með næstu spurningu: „Laugardagar eru nammidagar er það ekki?“ Pabbinn gat ekki svarað þessu öðruvísi en játandi. Eins og margir aðrir foreldrar hef ég ákveðið að laugardagar séu svokallaðir nammidagar.

Aftur fór hugur þeirrar litlu af stað. Mér var farið að líða eins og fórnarlambi rándýrs. Dóttir mín var yfirveguð og virtist vera með fast lokamarkmið í huga, þessar spurningar og svör mín leiddu hana greinilega nær einhverskonar fullnaðarsigri. „Pabbi myndir þú segja að kók sé nammi?“ Pabbanum þótti þetta góð samlíking: „Jú, það má segja að kók sé eiginlega fljótandi nammi.“ Búmm. Þarna var hún með svarið sem hún þurfti. Nú kom rothöggið: „Þú sagðir að það væri nammidagur og þú sagðir að kók væri nammi. Þannig að ég má fá kók.“

Ég gat ekki annað en stoppað í næstu sjoppu. Og keypt ískalda kók.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×