Skoðun

Hvað kýst þú?

Kristbjörg Þórisdóttir skrifar
Á morgun verður gengið til kosninga. Þú hefur valdið, kjósandi góður. Þitt atkvæði gæti ráðið úrslitum kosninganna! Það er í þínu valdi hvort ég sem frambjóðandi komist inn á Alþingi Íslendinga eða ekki. Það getur munað einu atkvæði. Þú getur valið hvaða stefnu verður fylgt á næstu fjórum árum. Ég mun leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu.

Traust í stjórnmálum

Sumir segja að kosningar skipti ekki máli og vilja ekki fara á kjörstað. Þeir aðilar láta öðrum það eftir að velja hverjir stjórna. Það er skiljanlegt að einhverjir beri ekki mikið traust til stjórnmálanna. Undanfarin tíu ár hefur rótleysi og vantraust einkennt stjórnmálin hér á landi. Við stjórnmálafólk höfum verk að vinna við að byggja að nýju upp traust á stjórnmálin. Það gerum við með því að segja það sem við gerum og gera það sem við segjum.

Eflum beint lýðræði

Efla þarf beint lýðræði meðal annars með breytingu á stjórnarskrá. Reynslan hefur kennt okkur að þegar við stöndum frammi fyrir okkar stærstu ákvörðunum skilar almenningur bestu niðurstöðunni. Eitt af þeim málum sem við stöndum frammi fyrir núna er að móta framtíðarsýn varðandi stór mál eins og þjóðarsjúkrahús og innanlandsflugvöll. Það eru mál sem gott væri að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkar atkvæðagreiðslur gætu farið fram samhliða kosningum til sveitarstjórna og Alþingis.

Við getum gert betur

Við erum fámenn þjóð, einungis um 340.000. Vegna þess höfum við möguleika á því að vera eins og sportbíll frekar en þungur trukkur. Við getum verið sveigjanlegri en stærri þjóðir og innleitt breytingar hraðar. Þess vegna tel ég að við getum gert betur á mörgum sviðum samfélagsins. Besta leiðin til þess að árangur náist er að sátt ríki. Besta leiðin til að ná sátt og viðhalda liðsheild er að allir taki þátt og lýðræðisleg niðurstaða náist í erfiðum málum.

Ég vona að þú nýtir lýðræðislegan rétt þinn á morgun og kjósir. Þannig tekur þú þátt í að móta framtíð okkar allra.

Höfundur skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×