Rafíþróttir

Fjórðu um­ferð lokið í CS:GO: Sviptingar á toppnum og stórir sigrar

Snorri Rafn Hallsson skrifar
VODAFONE CS:GO 2021

Fjórðu umferð Vodafonedeildarinnar í CS:GO lauk í gær þegar Þór pakkaði XY saman  16-2. Leikir umferðarinnar voru ójafnari en áður og sitja lið Dusty og Þórs nú tvö á toppnum.

Leikir vikunnar

Eins og vanalega fóru fjórir leikir fram í vikunni. Umferðin hófst á slag Dusty og Fylkis síðastliðið þriðjudagskvöld. Pallib0ndi hefur sagt skilið við félaga sína í Ármanni og er nú kominn yfir til Dusty. Ekki sást þó til hans í þessari viðureign þar sem Dusty stillti upp sínu hefðbundna liði, enda engin ástæða til að breyta því sem virkar. Liðið er enda ósigrað, og engin breyting varð þar á á þriðjudaginn. Leikmenn Fylkis sýndi þó að þrátt fyrir að hafa ekki unnið marga leiki eru þeir duglegir að standa uppi í hárinu á sterkari liðum og láta ekki valta yfir sig. Fylkir vann fyrstu þrjár loturnar í leiknum og var staðan ekkert gríðarlega ójöfn í hálfleik. Leikmenn Dusty voru þó útsjónarsamir og breyttu gjarnan leikhraða sínum og skipulagi til að tryggja sér öruggan sigur að lokum, 16-9, þar sem Eddezenn var allt í öllu.

Síðari leikur kvöldsins var leikur Vallea og Kórdrengja. Bæði lið hafa verið í erfiðleikum það sem af er tímabilinu. Bæði lið hafa tapað stórt og ekki krækt sér í mörg stig. Leikurinn fór fram í Mirage kortinu sem bauð upp á mikið sjónarspil og spennandi rimmur. Vallea hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik þar sem Goa7er bjargaði tveimur lotum fyrir horn til að Vallea héldi forskotinu. Í síðari hálfleik snerist allt við og voru Kórdrengir öllu sprækari í vörninni. Vallea voru nálægt því að tryggja sér sigur þegar Kórdrengir tóku mikla áhættu og gáfu frá sér lotu til að spara fyrir betri vopnum og freista þess að jafna leikinn í síðustu tveimur lotunum. Það gekk eftir og fór leikurinn því í framlengingu. Þar höfðu Vallea þó betur að lokum í þessari spennandi og skemmtilegu viðureign, 19-15.

Á föstudaginn mættust Saga og Ármann í fyrri leik kvöldsins. Aftur hafði hvorugt liðið átt góðu gengi að fagna en þegar á hólminn var komið var Saga einfaldlega miklu betri. Liðin mættust í Nuke og hafði Saga fullkomna stjórn á kortinu. Helsti veikleiki liðsins hingað til hefur verið að Sögu getur reynst erfitt að finna upp á einhverju nýju þegar andstæðingar finna loks svör við aðgerðum þeirra. Það kom þó ekki til þess í gærkvöldi því lið Ármanns var afar bitlaust og hugmyndasnautt og því gat Saga reitt sig á það sem virkaði vel. Vörnin var þétt hjá Sögu í fyrri hálfleik og í síðari hálfleik setti Saga miklu pressu í sóknina og gjörsamlega burstaði Ármann 16-3.

Lokaslagur umferðarinnar var svo þegar XY tók á móti Þór. Hvorugt liðið hafði tapað leik á tímabilinu en XY hefur þurft að hafa meira fyrir sínum sigrum en Þór. XY stóðst þó ekki þá prófraun sem þessi leikur var og yfirspiluðu Þórsarar XY algjörlega. Leikmenn á borð við Rean og Detinate fengu meira pláss í leiknum en hingað til og skilaði það sér í því að Þórsarar gátu lokað öllum leiðum og XY fékk hvergi tækifæri til að gera sér mat úr neinu. Illa gekk hjá XY bæði að fella andstæðingana og koma fyrir sprengjum, en út á það gengur leikurinn víst, svo fátt var um fína drætti hjá liðinu. Þórsarar unnu því stærsta sigur sem sést hefur á tímabilinu, 16-2, og sitja því sem fastast á toppnum við hlið Dusty. 

Staðan

Þór og Dusty hafa bæði unnið alla sína leiki og eru því með fullt hús stiga. Athygli vekur að munurinn á sigruðum og töpuðum lotum er sá sami hjá báðum liðum, +39, og hafa liðin með því sýnt gífurlega yfirburði í leikjum sínum. XY kemur þar á eftir með 6 stig og svo Vallea með 4, en fyrir miðju og botni deildarinnar raða sér Saga, Fylkir og Ármann með 2 stig hvert og Kórdrengir svo með 0 á botninum.

Viðureignir næstu viku eru svo sem hér segir:

Þór - Saga, 2. nóv. kl. 20:30.

XY - Dusty, 2. nóv. kl. 21:30.

Fylkir - Vallea, 5. nóv. kl. 20:30.

Kórdrengir - Ármann, 5. nóv. kl. 21:30.

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Er Vallea vélin komin í gang?

Síðari leikur gærkvöldsins í Vodafonedeildinni í CS:GO fór í framlengingu. Vallea hafði betur að lokum, 19-15, gegn sprækum Kórdrengjum.

Dusty sigraði nýliða Fylkis örugglega

Fjórða umferð Vodafonedeildarinn í CS:GO hófst í gær með leik Dusty og Fylkis. Dusty hafði betur 16-9 og er því taplaust á toppi deildarinnar.






×