Erlent

Gefur líka milljón í embættistökusjóð Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeff Bezos, eigandi Amazon, Washington Post og Blue Origin.
Jeff Bezos, eigandi Amazon, Washington Post og Blue Origin. AP/John Locher

Amazon, fyrirtæki auðjöfursins Jeff Bezos, mun gefa eina milljón dala (um 139 milljónir króna) í embættistökusjóð Donalds Trump, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Þá verður einnig sýnt frá athöfninni á Prime, streymisveitu Amazon, þegar hún fer fram þann 20. janúar.

Þá mun Bezos hitta Trump í næstu viku og funda með honum en hann á einnig fjölmiðilinn Washington Post, sem Trump hefur gagnrýnt harðlega í gegnum árin.

Bezos kom í október í veg fyrir það að Washington Post lýsti yfir stuðningi við Kamölu Harris í forsetakosningunum vestanhafs og leiddi það til uppsagna hjá miðlinum og fjölda uppsagna á áskriftum.

Sjá einnig: Sagður hafa stöðvað stuðningsyfirlýsingu

Bezos er meðal bandarískra auðjöfra sem Trump hefur verið harðlega gagnrýninn á í gegnum árin en hann á einnig í nokkuð umfangsmiklum viðskiptum við yfirvöld í Bandaríkjunum í gegnum geimferðafyrirtæki sitt, Blue Origin.

Þetta er í kjölfar þess að Meta, móðurfélag Facebook, sem er í eigu auðjöfursins Marks Zuckerberg, gaf einnig milljón í sjóðinn.

Embættistökusjóðir eru notaðir til að greiða fyrir embættistökuathöfn forseta Bandaríkjanna, skrúðgöngu og aðra fögnuði sem tengjast athöfninni. Engin takmörk eru á því hve mikla peninga menn og fyrirtæki geta gefið í þessa sjóði en slíkar fjárveitingar eru vinsælar hjá aðilum sem vilja komast í náðina hjá verðandi forsetum.

Framboð Trumps hefur gefið út að þeir sem gefa milljón dali eða meira í embættistökusjóðinn fá meðal annars að sitja kvöldverð með forsetanum, eiginkonu hans og JD Vance, varaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×